132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Stuðningur við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

313. mál
[16:41]
Hlusta

Frsm. félmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 53/1995, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, með síðari breytingum.

Þetta er í sjálfu sér einfalt mál. Það er lagt fram í tengslum við samkomulag sem gert var milli ríkis og sveitarfélaga í samræmi við tillögur tekjustofnanefndar ríkis og sveitarfélaga um framlengingu gildistíma laganna. Styrkveitingar samkvæmt þeim hafa frá árinu 1995, ef ég man rétt, verið 1,6 milljarðar kr. Gert er ráð fyrir að lögin verði framlengd. Verði þetta frumvarp að lögum má gera ráð fyrir 600 millj. kr. framlagi til þeirra mála næstu þrjú ár eða um 200 millj. kr. á ári.

Þess má geta að verulegur árangur hefur náðst í fráveitumálum sveitarfélaga, einkum í þéttbýlinu suðvestanlands. Munu nú um 70–80% Íslendinga búa við viðunandi ástand í fráveitumálum. Við stöndum að því leyti betur að vígi en flestar þjóðir Evrópu.

Að mati nefndarinnar er hins vegar mikilvægt að ljúka verkefninu. Nefndin beinir því til hlutaðeigandi aðila að gera tímasetta áætlun um lok framkvæmda.

Undir nefndarálitið skrifa auk mín hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir, Kristinn H. Gunnarsson, Ásta Möller, Mörður Árnason, Kjartan Ólafsson, Sigurrós Þorgrímsdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir, ásamt Kolbrúnu Halldórsdóttur sem skrifar undir með fyrirvara.