132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Stuðningur við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

313. mál
[16:47]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Við samfylkingarmenn skrifum undir nefndarálitið án fyrirvara. Í nefndarstarfinu kom í ljós að fulltrúar sveitarfélaganna voru í raun ekki sáttir við það frumvarp sem lagt var fram en í nefndarálitinu er vikið óbeint að því þar sem ljóst er að frumvarpið leysir ekki þann vanda sem við er að fást heldur fæst aðeins við hann í þann tíma sem lögin eiga að gilda og eftir það, eins og síðasti ræðumaður, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, sagði er von annars frumvarps. Þetta kemur fram í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að ljúka verkefninu og beinir nefndin því til hlutaðeigandi aðila að gera tímasetta áætlun um framkvæmdalok.“

Ég tel að þetta sé mikilvægt orðalag því það lýsir þeim vilja nefndarinnar að næst þegar frumvarp af þessu tagi kemur inn á þingið verði það til þess að klára þetta verkefni sem okkur skiptir miklu og við erum bundin í rauninni alþjóðasamningum um að klára og við beinum því til framkvæmdarvaldsins og til sveitarfélaganna að standa betur að verki þá en nú.

Við leggjum hins vegar til og höfum ekkert á móti því að þetta frumvarp verði samþykkt. Af því að hér er minnst á einkaframkvæmd verður að taka það fram líka að sérstaklega var spurt um það í nefndinni hvað væri mikið um slíkt og kom fram að það er enn þá aðeins sú eina sem umrædd var í fyrra þannig að ég sé ekki að frumvarpið í sjálfu sér snerti framkvæmdaformið á neinn hátt.