132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Úrvinnslugjald.

179. mál
[16:50]
Hlusta

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu eru lagðar til þrjár breytingar á lögum um úrvinnslugjald. Í fyrsta lagi að nýjar reiknireglur verði teknar upp vegna útreikninga á hlutfalli pappa-, pappírs- og plastumbúða utan um vöru, í annan stað breytingar á reglum um niðurfellingu og endurgreiðslu úrvinnslugjalds og í þriðja lagi er lögð til lækkun úrvinnslugjalds á hjólbarða. Þetta er mál sem við höfum tekið fyrir áður enda snýr stærsta málið að pappa-, pappírs- og plastumbúðum utan um vöru. Úrvinnslugjaldi hefur verið frestað eins og menn þekkja og hafa menn á þeim tíma sem þeir hafa haft tækifæri til útfært þetta nákvæmar en ráð var gert fyrir í upphafi.

Í umsögnum sem nefndinni bárust kom t.d. fram að það þætti kostur að settar væru nákvæmari reiknireglur um magn umbúða og þær skiptu máli varðandi markmið um endurvinnslu og endurnotkun. Þá kom fram að það fyrirkomulag að úrvinnslugjald yrði fellt niður í þeim tilfellum þegar umbúðir fara til útflutnings væri einfaldara en núverandi fyrirkomulag og kæmi í veg fyrir að úrvinnslugjald lægi falið í umbúðum á lager. Jafnframt var því fagnað að innheimta og umsýsla opinberra gjalda væri einfölduð með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu, þ.e. að innheimta og endurgreiðsla sé á sömu hendi, hjá innheimtumönnum ríkissjóðs. Auk þess kom fram að mikilvægt væri að vandað yrði til reglugerðar um framkvæmd endurgreiðslu.

Nefndin telur eðlilegt að gerð sé tillaga um lækkun úrvinnslugjalds á hjólbarða eins og kemur fram í frumvarpinu og telur nefndin að í sjálfu sér sé ánægjulegt að búið sé að ná niðurstöðu í þetta mál og þó að gildistöku hennar hafi verið frestað um þessa fjóra mánuði þá muni hún taka gildi 1. janúar 2006 að því gefnu að frumvarpið verði samþykkt. Mat nefndarinnar er það eðlilega að Íslendingar eigi að vera til fyrirmyndar á sviði umhverfismála og mikilvægt er að ríki og sveitarfélög ásamt hagsmunaaðilum hugi að næstu skrefum í söfnun, úrvinnslu og endurnýtingu. Ánægjulegt er frá því að segja að frá því að nefndin gekk frá þessu hefur verið stigið gott skref varðandi söfnun. Var sá sem hér stendur viðstaddur þegar kynnt var ný endurvinnslutunna sem í það minnsta íbúum höfuðborgarsvæðisins er boðið upp á. Vonandi verður það jákvætt og gott skref í þá átt að ná betri árangri á því sviði.

En hvað sem því líður leggur nefndin til að nokkrar breytingar verði gerðar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi að a-lið 1. gr. frumvarpsins verði breytt á þann veg að þær reiknireglur sem mynda álagningarstofn úrvinnslugjalds verði í viðauka við lögin í stað þess að ráðherra setji þær í reglugerð. Ástæðan fyrir þessu er einfaldlega sú að menn töldu eftir að hafa farið vandlega yfir það í nefndinni að það stæðist tæplega eða vafamál væri að það stæðist stjórnarskrá ef þetta væri gert með þeim hætti sem upphaflega er gert ráð fyrir í frumvarpinu.

Í öðru lagi að tekið verði fram að það sé umhverfisráðherra sem setur reglugerð skv. a-lið 1. gr., b- lið 1. gr. og 6. málsl. 2. gr. frumvarpsins. Í þriðja lagi er gerð tillaga um orðalagsbreytingu í 2. málsl. 3. mgr. 15. gr. laganna.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Undir þetta skrifar sá sem hér stendur og hv. þingmenn Ásta R. Jóhannesdóttir, Kristinn H. Gunnarsson, Ásta Möller, Mörður Árnason, Kjartan Ólafsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Sigurrós Þorgrímsdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.