132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

189. mál
[17:04]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég hef í raun fyrirvara við þetta mál en ég hef verið áheyrnarfulltrúi í allsherjarnefnd og fylgdist með umfjöllun um málið þótt þess sé ekki getið í nefndarálitinu.

Frú forseti. Við fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gerðum alvarlegar athugasemdir við aðild Íslendinga að Schengen-upplýsingakerfinu þegar það var leitt í lög. Við féllumst ekki á rökin fyrir því að við þyrftum að leggja niður landamæraeftirlit okkar á þann hátt sem við undirgengumst á sínum tíma, eftirlit sem var og er einfalt að sinna hér á landi í ljósi aðstæðna. Við búum á eyju í miðju Atlantshafi og eigum ekki landamæri að öðrum ríkjum.

Við töldum líka að Norðurlöndin hefðu öll átt að standa gegn því að kerfinu yrði komið á, sérstaklega í ljósi þess að löngu áður höfðu þau komið á ferðafrelsi þegna sinna á milli Norðurlandanna án vegabréfsáritana og vegabréfa. Við erum enn þeirrar skoðunar, frú forseti, að það hefði verið heppilegri kostur fyrir Norðurlönd að fara svipaða leið og Bretland og Írland og semja um þátttöku í þeim hlutum þessa upplýsingasamstarfs sem menn töldu æskilegt að taka þátt í en halda sjálfstæði gagnvart öðrum þáttum. Þannig hefðum við getað tekið sjálfstæða afstöðu til allra breytinga á kerfinu, t.d. þeirra sem hér á að innleiða. En nú eigum við ekkert val, jafnvel ekki þegar okkur þykir orka tvímælis hvers konar upplýsingar á að heimila að skrá í kerfið. Við skulum ekki gleyma því að kerfið er í auknum mæli notað til að auðvelda lögreglu að hafa uppi á meintum hryðjuverkamönnum. Við skulum ekki gleyma því að þjóðir hafa átt afar erfitt með að halda viðbrögðum sínum í þeim efnum innan skynsamlegra marka. Þar nægir að nefna fangelsanir Bandaríkjastjórnar á meintum hryðjuverkamönnum, t.d. fanga í Guantanamo sem haldið er án ákæru. Ekki er langt seilst með því að nefna líka flutninga Bandaríkjastjórnar á föngum á milli landa og yfirheyrsluaðferðir sem fela í sér pyndingar. Það er allt gert í nafni stríðsins gegn hryðjuverkum, sem auðvitað er öfugmæli í sjálfu sér.

Hæstv. forseti. Ég tel þó að þær breytingar á málinu sem allsherjarnefnd gerir tillögur um séu til bóta. Svo ég hafi allt í sama orðinu og spari okkur tímann ætla ég að láta atkvæðaskýringu mína fylgja með. Þegar fullgilding samningsins um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna var samþykkt á Alþingi þá greiddum við hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs atkvæði gegn tillögunni. Þegar lögin um kerfið voru samþykkt sátum við hjá. Við höfum ekki breytt um afstöðu á þeim fimm árum sem liðin eru síðan það var og ætlum því að sitja hjá við þá afgreiðslu sem fram undan er síðar í dag.