132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Hollustuhættir og mengunarvarnir.

314. mál
[17:13]
Hlusta

Frsm. meiri hluta umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á sínum tíma, nánar tiltekið árið 2002 — ég tek það fram hafi það ekki komið nógu skýrt fram áðan — var sett reglugerð varðandi þetta mál. Með þessu frumvarpi verða engar breytingar frá þeirri reglugerð sem nú er til staðar og sveitarfélögin vinna eftir. Samtök íslenskra sveitarfélaga gerðu ekki athugasemd við þá reglugerð, sem hafði ákveðinn kostnað í för með sér fyrir aðila sem eiga leiksvæðin, t.d. sveitarfélögin. Þau ítreka í umsögn sinni til nefndarinnar að þau geri ekki athugasemd við þetta frumvarp fremur en þegar reglugerðin var lögð fram og kostnaðurinn kom til. Því er ekki um það að ræða að leggja á nýjar álögur, nema menn hafi ekki farið eftir reglugerðinni.

Þess ber þó að geta að komin er reynsla á þetta. Ég get upplýst, af því að ég er spurður um það, að ég hef t.d. upplýsingar frá Kópavogi, sem hefur notað sér þá þjónustu sem er til boða. Kostnaðurinn er að meðaltali, það er misjafnt eftir leiksvæðum en að meðaltali hefur kostnaðurinn verið um 17 þús. kr. á hvert leiksvæði hjá Kópavogsbæ. Síðan eru dýrari þættir eins og stóru skólalóðirnar þar sem mestu slysin verða. En þetta er kostnaðurinn að meðaltali. Ef við gerum ráð fyrir 1.800 leiksvæðum á landinu og miðum við þessa upphæð þá yrði kostnaðurinn 30 millj. kr. og fer vonandi lækkandi. Menn vonast til að svo verði eftir því sem fleiri aðilar fá faggildingu og meiri samkeppni verður á þessu sviði.