132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Hollustuhættir og mengunarvarnir.

314. mál
[17:37]
Hlusta

Frsm. minni hluta umhvn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. formaður umhverfisnefndar segir núna í ræðu sinni að þetta sé gott mál. Jú, gott og vel en eins og ég sagði áðan er okkur ekki gert kleift að styðja málið vegna þess hversu illa unnið það er. Um það snýst ágreiningurinn fyrst og fremst plús það að umsagnir sem hafa borist gefa til kynna svo óyggjandi sé að hér sé verið að brjóta reglur og samkomulög.

Má ég minna á að í umsögn frá Umhverfisstofu Reykjavíkurborgar segir, með leyfi forseta:

„Þá verður ekki séð af frumvarpi þessu að fylgt hafi verið ákvæðum 3. gr. laga nr. 28/1999, um opinberar eftirlitsreglur, en þar er kveðið á um að þegar eftirlitsreglur eru samdar eða stofnað er til opinbers eftirlits, skuli viðkomandi stjórnvald leggja mat á þörf fyrir eftirlit, gildi þess og kostnað þjóðfélagsins af því.“

Ekkert af þessu höfum við gert. Ég spyr því: Er búið að ganga úr skugga um að þessar eftirlitsreglur séu ekki brotnar? Í mínum huga er ekki búið að því.

Í öðru lagi vil ég nefna út af ræðu hv. formanns og því sem Samband íslenskra sveitarfélaga segir í umsögn sinni og það er alveg augljóst hvers kyns er í þeirri umsögn. Umhverfisráðherra er náttúrlega með tangarhald á hv. formanni nefndarinnar og mögulega formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga líka. Innan stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga er mikil óeining um þessa framsetningu málsins, ekki það markmið að sjá til þess að gott og kröftugt eftirlit sé með opnum svæðum og leiktækjum. En um þessa framsetningu málsins er mikill ágreiningur í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Nú er eðlilegt að maður spyrji hvort hv. þingmaður sé ekki bara að lyppast niður fyrir einhverri kröfu hæstv. umhverfisráðherra sem verður að knýja fram á Alþingi lagastoð fyrir, reglugerð sem hún er þegar búin að setja sem hún hafði ekki lagastoð fyrir af því að hún athugaði ekki málið. Það er hennar klúður en ekki okkar sem hér er um að ræða og við löggjafarsamkundan eigum ekki að vera að reyna að leiðrétta klúður hæstv. umhverfisráðherra á þessum nótum.