132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[18:36]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er um afskaplega ánægjulegt mál að ræða. Það er verið að nýta þá fjármuni sem fengust fyrir vel heppnaða einkavæðingu Landssímans. Það er gert til að styrkja innviði Íslands, velferðarkerfið, og svo eru settir miklir fjármunir í nauðsynlegar samgöngubætur. Ég vek athygli á því að um 70% af fénu fara í verkefni sem nýtast öllu landinu, þó sérstaklega höfuðborgarsvæðinu, mislæg gatnamót við Suðurlandsbraut og Vesturlandsveg, tvöföldun Reykjanesbrautar, og síðast en ekki síst er hér um að ræða fjármögnun á Sundabrautinni. (Gripið fram í.)

Það vekur athygli mína að enn og aftur ýtir ríkisstjórnin á eftir nauðsynlegum samgöngubótum í Reykjavíkurborg á meðan meiri hluti í borginni dregur lappirnar. Þar sem ég hef orðið var við það að þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar eiga erfitt með að styðja fjármögnun Sundabrautar mun ég fylgjast nokkuð vel með því hvað gerist í atkvæðagreiðslunni á eftir.