132. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2005.

Hæstaréttardómur í máli jafnréttisstýru.

[18:38]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Niðurstaða Hæstaréttar í máli Valgerðar H. Bjarnadóttur, fyrrverandi framkvæmdastýru Jafnréttisstofu, gegn félagsmálaráðherra eða ríkinu hlýtur að teljast gríðarlegt áfall fyrir hæstv. ráðherra. Að sama skapi er niðurstaðan sigur fyrir Valgerði, fyrir réttarkerfið og fyrir jafnréttisbaráttuna. Hæstv. ráðherra er dæmdur sekur um alvarleg brot á meginreglum stjórnsýsluréttar, hann er dæmdur sekur um brot á meðalhófsreglu og framganga hans er ólögmæt meingerð í garð viðkomandi persónu sem veldur henni miska sem ríkið er dæmt skaðabótaskylt gagnvart.

Í reifun dómsins kemur fram ófögur lýsing á samskiptum ráðherrans við þennan undirmann sinn sem hann knýr til ástæðulausrar og tilefnislausrar uppsagnar án þess að hirða um að velja mildari leiðir til að reyna að leysa málið.

Segir m.a. um það í dómnum:

„Verður því að líta svo á að með þessu hafi hann [ráðherrann] stytt sér leið að settu marki með því að knýja áfrýjanda í reynd til að fallast á að láta af starfinu. Val ráðherra á leið til að leysa málið var ósamrýmanlegt þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar að óheimilt sé að undirbúningur og úrlausn máls miði að því að komast hjá að fylgja lögboðinni málsmeðferð, sem ætlað er að tryggja réttaröryggi aðila. Með þessu og því að virða ekki reglu um meðalhóf í stjórnsýslu hefur ráðherra bakað stefnda skaðabótaskyldu gagnvart áfrýjanda.“

Um skaðabótaskylduna segir, með leyfi forseta, að hún, þ.e. þolandinn eða áfrýjandinn, verði „talin hafa orðið fyrir ólögmætri meingerð á æru sinni og persónu, svo að miskabótum varði samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga“.

Þegar haft er í huga, herra forseti, að hér á í hlut ráðherra jafnréttismála og ráðherra málefna vinnumarkaðarins hlýtur staða hæstv. ráðherra í þessu samhengi að teljast alvarleg. Ég spyr því hæstv. félagsmálaráðherra: Hefur hann ekki hugleitt, alvarlega hugleitt, að biðjast lausnar? Telur hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) að sér sé sætt í ljósi niðurstöðu þessa máls?