132. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2005.

Hæstaréttardómur í máli jafnréttisstýru.

[18:43]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Í gær var hæstv. félagsmálaráðherra, Árni Magnússon, dæmdur í Hæstarétti fyrir að brjóta lög í landinu og fyrir að misbeita valdi sínu gagnvart framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að ráðherrann hefði brotið gegn einni af mikilvægustu grundvallarreglum stjórnsýslunnar sem meðalhófsreglan er. Svo mikið lá hæstv. félagsmálaráðherra á að losa sig við framkvæmdastjórann að hann knúði hana til afsagnar meðan mál hennar var enn í gangi hjá dómstólum. Svona vinnubrögð og framkoma eru alveg með ólíkindum.

Það er auðvitað háalvarlegt mál þegar hæstv. ráðherra er dæmdur fyrir valdníðslu og að brjóta lög. Því ber að sjálfsögðu að ræða það hér á Alþingi. En þetta er reyndar einn af mörgum hæstaréttardómum sem hæstv. ráðherrar í þessari ríkisstjórn hafa fengið á sig. Meira að segja síðast í dag fengu þessi sömu stjórnvöld áfellisdóm frá umboðsmanni Alþingis í Falun Gong málinu. Hins vegar er alveg ljóst að þessi dómur hæstv. jafnréttismálaráðherra gagnvart framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu rýrir talsvert traust hans sem jafnréttisráðherra. Þessi sami ráðherra hefur farið mikinn að undanförnu í jafnréttismálum og þetta er ekki heppileg framkoma hjá ráðherra jafnréttismála sem hann sýnir þegar hann lætur verkin tala.

Viðbrögð ráðherrans við þessum dómi Hæstaréttar hafa einungis verið þau að hann lýsi vonbrigðum sínum með dóminn og undrun og síðan reynir hann að skýla sér á bak við embættismenn ríkisins í yfirlýsingu sinni. (Gripið fram í: Hvað er ríkið …?) Málsvörn hans hér í salnum er með ólíkindum.

Hæstv. jafnréttismálaráðherra ætlar sér ekki að gera neitt og telur augljóslega að þessi dómur eigi ekki að hafa neinar afleiðingar fyrir sig. Það sýnir auðvitað í hnotskurn hvernig þessi þreytta ríkisstjórn tekur á þeim hæstaréttardómum sem þeir fá reglulega í hausinn. Eftir stendur vængbrotinn ráðherra jafnréttismála sem telur það ekki vera mikið tiltökumál að vera dæmdur fyrir að brjóta lög á framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu.