132. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2005.

Hæstaréttardómur í máli jafnréttisstýru.

[18:47]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Málsvörn hæstv. félagsmálaráðherra í þessu máli er með hreinum eindæmum. Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað, söng Megas með Íkarus fyrir nokkrum árum. Hæstv. ráðherra hefur verið dæmdur fyrir að brjóta meginreglu stjórnsýsluréttar, hann braut meðalhófsreglu og hann stofnaði til skaðabótaréttar með því að hann er talinn hafa valdið Valgerði H. Bjarnadóttur ólögmætri meingerð á æru sinni og persónu svo að miskabótum varði, eins og segir í dómnum.

Frú forseti. Hvað ætli sé að gerast eða öllu heldur gerjast í kollinum á hæstv. ráðherra núna, ráðherra sem ber ábyrgð á jafnréttismálum í þeirri ríkisstjórn sem nú situr? Í fjölmiðlum hefur hann sagst hafa orðið fyrir vonbrigðum með dóminn en mig langar til að vita hvað hann telji að málaflokknum, þ.e. jafnréttismálunum sem hann er ábyrgur fyrir, kunni nú að vera fyrir bestu. Í greinargerð hæstv. ráðherra sem dagsett er 21. júlí 2003 og varðar þetta mál segir hæstv. ráðherra að Valgerður H. Bjarnadóttir hafi þurft að hverfa frá störfum vegna þess að það kynni að vera málaflokknum fyrir bestu. En hvað telur hæstv. ráðherra nú að sé málaflokknum fyrir bestu? Þetta mál er hætt að vera hæstv. ráðherra pólitískt óþægilegt, það er orðið pólitískt axarskaft og maður spyr, frú forseti: Hvað ætlar ráðherrann að gera í því? Hvað telur ráðherrann að sé málaflokknum nú fyrir bestu?