132. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2005.

Hæstaréttardómur í máli jafnréttisstýru.

[18:55]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er auðvitað alveg rétt hjá hæstv. félagsmálaráðherra að hér erum við ekki saman komin til að ræða efnislega um dóm Hæstaréttar. Hæstiréttur hefur talað. Nú er leitað eftir viðbrögðum hæstv. félagsmálaráðherra, yfirmanns jafnréttismála hér á landi.

Ég verð að segja eins og er, frú forseti, að þegar Árni Magnússon, hæstv. félagsmálaráðherra, tók við ráðherraembætti fyrir tveimur og hálfu ári þótti mörgum hann valdsmannslega vaxinn, og viðbrögð hans við ástandinu fyrir norðan þóttu ýmsum við hæfi. Svona gera menn sem kunna að stjórna.

Síðan hefur komið í ljós hvað fór fram á bak við luktar dyr í félagsmálaráðuneytinu og hvernig jafnréttisstýran var knúin til að hætta störfum. Hæstiréttur hefur talað, frú forseti. Það hefur hæstv. félagsmálaráðherra hins vegar ekki gert, ekki skýrt og skorinort. Við vitum það öll sem hér sitjum inni að alls staðar í samfélögum þar sem rekin er sæmilega heilbrigð pólitík, þar sem sæmilega heilbrigt ástand er í stjórnmálum, bregðast ráðherrar sem fá á sig slíkan dóm úr Hæstarétti þannig við að þeir segja af sér. Þannig sýna þeir að þeir beri virðingu fyrir valdinu, fyrir dómsvaldinu, og að þeir beri virðingu fyrir því valdi sem þeim hefur verið fengið sem ráðherrar. Það snýst ekki um persónu ráðherrans. Það snýst um þann málaflokk sem hann sér um og það snýst um það vald sem í því felst að vera skipaður ráðherra á Íslandi.