132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Norðlingaölduveita.

[13:41]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins til að vekja athygli þingheims á þeim breyttu forsendum sem orðið hafa síðan Norðlingaölduveita var sett inn í lög um raforkuver árið 2003. Margt hefur breyst frá þeim tíma og vil ég í því sambandi sérstaklega nefna að mjög víðtæk samstaða er í þjóðfélaginu um Þjórsárver, um að þyrma því svæði og stækka friðlandið.

Ég vil í öðru lagi nefna að forsendan um sátt á milli hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Landsvirkjunar sem var þá höfð til grundvallar heldur ekki, það er ekki sátt um málið á milli þessara aðila.

Ég vil í þriðja lagi nefna rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem hefur komið fram eftir að þetta fór inn í lögin þar sem fram kemur að Þjórsárverasvæðið fær hæstu einkunn hvað náttúruumhverfi varðar.

Ég vil nefna að forsætisráðherra hefur sagt að ekki sé brýn þörf fyrir þá raforku sem þarna er hægt að framleiða og það er líka meðal breyttra forsendna að í dag mun það væntanlega gerast í borgarstjórn Reykjavíkur að framsóknarmenn þar munu samþykkja ályktun gegn veitunni og fyrir stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

Þá hefur aðstoðarmaður ráðherra tjáð sig um þetta mál með þeim hætti að ekki sé þörf fyrir þetta lengur og ætti að falla frá þessari veitu. Mér finnst tímabært að forsætisráðherra móti stefnuna en láti ekki aðstoðarmann sinn um það. Hann taki nú af skarið og taki höndum saman við okkur í stjórnarandstöðunni um að þyrma Þjórsárverum og fella Norðlingaölduveitu úr raforkulögum.