132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Norðlingaölduveita.

[13:50]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er því miður ekki rétt hjá hæstv. forsætisráðherra og umhverfisráðherra að málið sé í farvegi. Svo er einmitt ekki. Sú sátt sem áskilin var í frægum úrskurði setts umhverfisráðherra er ekki fyrir hendi. Samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins hefur afgreitt málið fyrir sína hönd og hæstv. umhverfisráðherra, sem hér situr, hefur úrskurðað um kærur í því efni. Ekkert hefur gerst í málinu nema að Landsvirkjun hefur lýst yfir að hún vilji allt til vinna til að halda áfram virkjunaráformum, orkuöflunaráformum sínum þarna upp frá.

Hins vegar hefur þjóðinni og margs konar samtökum gefist tími til að líta á málið upp á nýtt, frá því það var flutt sem forsenda fyrir stækkun Grundartangaverksmiðjunnar. Fjórar framkvæmdir voru í þeim pakka og kynntar sem slíkar. Núna hefur myndast meiri hluti í skoðanakönnunum meðal landsmanna um að vernda Þjórsárver, að stækka friðlandið í Þjórsárverum. Stjórnarandstaðan tekur öll undir það. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur líka tekið undir það og hafnar þeirri orkuöflunarframkvæmd. Guðni Ágústsson, hæstv. landbúnaðarráðherra, er því miður farinn úr salnum en þarna er hans góði stóll, sagði í ágúst 2003: Ekki fermetra af Þjórsárverum. Ég hygg að Guðni Ágústsson standi enn við þá skoðun.

Samkvæmt þessu er þingmeirihluti á þinginu gegn áformum um Norðlingaölduveitu. Það er líka merkilegt fyrir forsætisráðherra að nú skuli þeir þrír sem hafa boðið sig fram í fyrsta sæti í prófkjöri framsóknarmanna í Reykjavík, Anna Kristinsdóttir, Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður ráðherrans, og Óskar Bergsson, öll hafa lýst sig andsnúin þessari framkvæmd. Við lýsum einfaldlega eftir því að fá að heyra hver er vilji forsætisráðherra Íslands í málinu, formanns Framsóknarflokksins. Hann á að svara því og vera ekki með málalengingar.