132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[14:33]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað ákveður hv. þingmaður það sjálf hvað hún segir eða hvaða afstöðu hún hefur. Það var ekki nýtt í þessu máli. Mér datt bara í hug að hitt hefði verið fróðlegt fyrir þingheim að frétta hver afstaðan væri. Kannski er hún engin eins og oft kemur fram þegar við horfum á gulu takkana hér, gulu ljósin. Engin afstaða. Það kæmi mér ekki á óvart að það yrði niðurstaðan hér.

En menn virðast algerlega hafa gleymt því um hvað málið fjallar. Það er talað um að einhver öskur og óp hafi komið frá Flateyri. Það er mjög rangt. Þetta mál fjallar um það að við sem þingheimur eigum að reyna að sýna einhvern trúverðugleika. Reyna að lafa í því að hafa einhvern trúverðugleika gagnvart þjóðinni ef þess væri einhver kostur. (Gripið fram í: Hvar varst þú í ...?) Það var það sem um var rætt. Það var það sem um var að ræða. (Gripið fram í.) Ég hef tekið til máls árum saman um launamál á Íslandi. Allir ættu að vita það sem rekur minni til þess nema sumir sem eru svo minnislausir eins og borgarstjórinn í Reykjavík sem man ekkert um það. Ég hef tekið til máls og alltaf á sama hátt, ég vara við þeirri launaþróun sem er hér á landi. Ég hef varað við því að skerða kjör og möguleika Íslendinga með því að fara svo óvarlega sem raun ber vitni, að hækka hér laun langt umfram framleiðniaukningu iðnaðarins. Þetta hef ég gert árum saman og því miður, virðulegi forseti, hafa mjög fáir tekið undir það. Aldrei hef ég fengið neinn stuðning frá stjórnarandstöðunni og kannski ekki heldur frá eigin liðsmönnum. Þetta er vandamálið sem við stöndum frammi fyrir. Um það fjallar þetta frumvarp. Því vona ég að menn hafi manndóm í sér til að styðja það.