132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[14:36]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir notaði hér margoft í ræðu sinni sérkennilegt orðalag þegar hún talaði um að þingheimur hafi verið að véla um eitthvað í þessu máli. Þingheimur hefði verið að véla um mál. Hún talar líka um tvískinnung. Það vakti mig til umhugsunar um hvernig atkvæðagreiðslan fór árið 1992 þegar afgreidd voru lög um Kjaradóm og kjaranefnd. Þá kom í ljós að 45 þingmenn greiddu málinu atkvæði, níu greiddu ekki atkvæði, þar af fjórar kvennalistakonur. Þannig var nú atkvæðagreiðslan. Þetta er sú vélun sem hv. þingmaður talar hér um. Það var einróma vilji þingmanna að leysa það deilumál með þessum hætti. Ég get að einu leyti tekið undir með hv. þingmanni um það sem snýr að vinnubrögðum Kjaradóms. Ég er fyllilega sammála Kjaradómi að frá þessu máli varð ekki snúið með neinum hætti. Hann hefði gert lítið úr sínum eigin störfum og lögin voru alveg skýr um hvernig hann átti að vinna. En orðalag hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þegar hún segir að þingmenn séu að véla um málið er náttúrlega alveg fyrir neðan allar hellur.