132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[15:22]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd. Það er óþarfi að fara yfir forsögu þess að málið er komið í sali Alþingis sem fyrsta mál eftir þingfundahlé í kringum áramót. Ég held að flestir þekki aðdragandann að málinu og þá umræðu sem orðið hefur í kringum úrskurð Kjaradóms sem kveðinn var upp 19. desember síðastliðinn. Það er kannski óþarfi að fara mörgum orðum um aðdragandann og umræðuna sem fylgt hefur.

Frumvarpið sjálft er ekki stórt í sniðum. Við þingmenn stjórnarandstöðu sáum það fyrst í morgun. Ég verð að segja fyrir mig að ég átti von á frumvarpi sem liti aðeins öðruvísi út. Ég mun fara yfir það á eftir. En í meginatriðum snýst frumvarpið um að úrskurður Kjaradóms frá 19. desember 2005 skuli falla úr gildi frá og með 1. febrúar næstkomandi. Frá sama tíma skulu mánaðarlaun og einingar samkvæmt úrskurði Kjaradóms frá 9. júní 2005 hækka um 2,5%.

Hvað segir 1. gr., eða fyrri hluti 1. gr. frumvarpsins, okkur? Jú, hún segir okkur að úrskurður sem Kjaradómur kvað upp og tók gildi um áramótin skuli falla úr gildi mánuði síðar og laun þeirra sem taka laun samkvæmt Kjaradómi skuli lækka frá sama tíma.

Þegar maður veltir fyrir sér með hvaða hætti Kjaradómur og síðan kjaranefnd ákvarða laun þeirra sem undir þá falla og skoðar ákvarðanir hans aftur í tímann þá getur maður ekki séð að dómurinn eða kjaranefnd hafi farið út fyrir verksvið sitt með uppkvaðningu úrskurða sinna. Lögin eru þrátt fyrir allt það skýr um að Kjaradómur og kjaranefnd skuli taka tillit til þess sem gerist í sambærilegum stéttum. Ef menn skoða það af sanngirni er ekki hægt annað en að komast að þeirri niðurstöðu að kjaranefnd og síðan Kjaradómur hafi 19. desember síðastliðinn í raun staðfest launahækkanir sem orðið hafa hjá sambærilegum stéttum.

Frumvarpið hefur því í för með sér að þeir sem taka laun samkvæmt Kjaradómi eigi að hækka minna en sambærilegir hópar undanfarin tvö ár. Það þýðir líka að þeir sem taka laun samkvæmt Kjaradómi skuli hækka minna en þeir sem hafa laun samkvæmt úrskurði kjaranefndar. Frumvarpið tekur reyndar einnig á fjölmörgum sem heyra undir kjaranefnd. Ég sé ekki betur en að textinn um að einingar, samkvæmt úrskurði Kjaradóms frá 9. júní 2005, skuli hækka um 2,5%, þýði að sá fjöldi sem tekur hluta af starfskjörum sínum í svokölluðum einingum og fékk útborgað samkvæmt úrskurði Kjaradóms frá og með 1. janúar á þessu ári, upp undir 2000 starfsmenn ríkisins, muni einnig taka á sig lækkun launa verði frumvarpið að lögum. Það er því ekki einungis tekið á þeim hóp sem Kjaradómur hefur yfir að segja. Samkvæmt orðanna hljóðan í frumvarpinu get ég ekki skilið það öðruvísi en svo að þeir sem taka hluta launa í einingum og heyra einnig undir kjaranefndina taki á sig lækkun á launum frá og með 1. febrúar, sé miðað við áramótin.

Bara sem dæmi, þá er einingin samkvæmt úrskurði Kjaradóms frá 19. desember, 4.975 kr. Samkvæmt frumvarpinu verður einingin 4.715 kr. eða 260 kr. lægri. Það mun hafa þau áhrif að u.þ.b. 2000 starfsmenn munu fá lægri laun útborguð í febrúar en þeir fengu í janúar. Gott væri ef hæstv. fjármálaráðherra gæti staðfest skilning minn á því sem þarna stendur. En með því að lesa frumvarpið í gegn sé ég a.m.k. ekki betur en að svona sé í pottinn búið.

Hverjir heyra undir kjaranefndina og munu fá lægra útborgað en þeir fengu um síðustu mánaðamót? Það eru samkvæmt lögum: Sendifulltrúar og sendiherrar; skrifstofustjórar, ráðuneytisstjórar og skrifstofustjóri Alþingis; forsetaritarinn, skrifstofustjóri Hæstaréttar, vígslubiskupar, prófastar og prestar; saksóknarar, vararíkissaksóknari, ríkislögmaður og sýslumenn; lögreglu- og varalögreglustjórar; skattstjórar og yfirskattanefndarmenn; forstöðumenn allra ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja, þar með taldir skólameistarar. Þetta frumvarp mun hafa áhrif nokkuð stóran hóp og því þætti mér vænt um það ef hæstv. ráðherra gæti staðfest þennan skilning minn.

Í athugasemdum með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Í ljósi þeirra áhrifa sem úrskurður Kjaradóms gæti haft á stöðu vinnumarkaðsmála, þar á meðal nýgert samkomulag aðila vinnumarkaðarins um kjaramál, og þeirra ófyrirsjáanlegu áhrifa sem slíkt hefði á stöðugleikann í efnahagsmálum, er nauðsynlegt að bregðast við ákvörðun Kjaradóms frá 19. desember 2005.“

Þegar maður les þennan passus yfir í greinargerðinni veltir maður fyrir sé hvort hér sé ekki verið að hengja bakara fyrir smið. Þar er bakarinn Kjaradómur og vísað í að með úrskurði Kjaradóms sé stöðugleikinn settur í hættu meðan það er smiðurinn sem er ábyrgur. Hann heitir Geir H. Haarde, hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra. Er ríkisstjórnin ekki að beina athyglinni frá þeirri staðreynd að hún sjálf og enginn annar fer með forræði yfir samningum við starfsmenn sína og býr m.a. sjálf til þá viðmiðun sem kjaranefnd og Kjaradómur eiga að styðjast við í störfum sínum? Ef úrskurður Kjaradóms hefði ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir stöðugleikann hljóta þá ekki gerðir ríkisstjórnarinnar og fyrrum hæstv. fjármálaráðherra Geirs H. Haardes að vera undirrót þess vanda sem lýst er í frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem við ræðum hér? Er ekki ríkisstjórnin með öðrum orðum að segja að sá vandi sé til komin vegna hennar sjálfrar? Hún kýs hins vegar að nefna Kjaradóm í því sambandi fremur en að benda á sjálfa sig axla þá ábyrgð sem hún ber í málinu.

Sá sem hér stendur er meira en tilbúinn til þess að taka þátt í því að hækkun til þingmanna og ráðherra verði minni en gert er ráð fyrir í úrskurði Kjaradóms. En af hverju og til hvers — er ekki þörf á að ræða það frekar í stað þess að beina spjótum að þeim aðilum sem vinna samkvæmt lögum og reglum að verkefni sem við höfum falið þeim? Það getur ekki verið auðvelt hlutverk að sitja í kjaranefnd og Kjaradómi, hafa tiltölulega skýrar verklagsreglur samkvæmt lögum en standa síðan frammi fyrir því að þurfa að taka á sig allmikla gagnrýni fyrir það eitt að fara að þeim lögum. Ræðum þá í alvöru hvort launabilið á Íslandi sé of mikið, hvort launabilið hjá hinu opinbera sé of mikið. Skoðum í alvöru og ræðum af hreinskilni hvort ekki sé ástæða til þess að hækka hærri laun hjá ríkinu minna en þau lægri og þá tímabundið, jafnvel frysta hærri launin tímabundið til að geta híft lægri launin upp og minnkað launabilið. Ef verið væri að tala um einhverja slíka heildstæða aðgerð með það skýra markmið að draga úr launabilinu hjá hinu opinbera og á almennum markaði væri umræðan á annan veg.

Við þekkjum öll þá miklu umræðu sem varð í kringum úrskurð Kjaradóms, hróp og köll að vestan voru nefnd hér fyrr í umræðunni. Er nokkur hissa þó að maður velti því fyrir sér hvernig menn vinna og hvernig menn taka á málum? Við munum öll hróp og köll að vestan, þegar borgarstjórinn í Reykjavík samdi við láglaunastéttir hjá borginni um hækkun launa, um hvers konar vá væri fyrir dyrum, landauðn blasti við af því að gerður var samningur um að hækka lægstu launin. En á sama tíma eru í gangi hjá ríkinu talsvert miklar hækkanir á launum þeirra sem fara með mannaforráð, stjórnenda, millistjórnenda og embættismanna sem enginn virðist hafa gert sér grein fyrir, eða hvað? Af hverju verður þetta mikla upphlaup þegar Kjaradómur kveður upp sinn úrskurð og gerir ekkert annað en að staðfesta þetta? Kjaradómur skýrir það ákaflega vel í bréfum sínum til hæstv. forsætisráðherra og í þeim úrskurði sem lagður var fram að einungis væri verið að breyta kjörum þess hóps sem heyrir undir hann til samræmis við það sem kjaranefndarfólk og viðmiðunarhópar höfðu áður fengið.

Getur verið að þáv. hæstv. fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, hafi ekki vitað hvað var að gerast í ríkisstofnunum eða ríkisfyrirtækjum? Getur verið að núv. hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki vitað hvað var að gerast í ráðuneytum almennt og hvað var að gerast hjá ríkisstofnunum í stofnanasamningum og viðbótarsamningum við þær launatöflur sem um hafði verið samið? Ég á bágt með að trúa því að menn sitji svo sofandi í störfum sínum að þeir hafi ekki áttað sig á þessu og ekki vitað af þessu. Rekstrarkostnaður stofnana og ráðuneyta er að miklum hluta laun og eins og bent hefur verið á áður hér í umræðunni sjáum við það í fjáraukalögum á hverju ári að stofnanir þurfa á auknu fé að halda umfram áætlanir. Maður skyldi halda að hæstv. fjármálaráðherra á hverjum tíma eða ráðherrar hæstvirtir í ráðuneytum skoði orsakir þess að stofnanir og fyrirtæki ríkisins fara aftur og aftur yfir fjárlög.

Mér finnst satt að segja full ástæða til að velta upp þeirri spurningu hvort æðstu embættismenn þjóðarinnar — og undanskilja þá okkur þingmenn og ráðherra — eigi að gjalda fyrir það að vera settir í hóp með þjóðkjörnum fulltrúum þegar kemur að ákvörðun starfskjara. Ég velti því líka fyrir mér hvort það sé viðeigandi að skerða kjör þeirra frá því lögskipaða ferli sem kemst að niðurstöðu um launabætur. Eins og ég sagði áðan er ég ekki að tala um þingmenn og ráðherra. Við í þessum sal getum tekið þá ákvörðun sjálf að falla frá þeirri hækkun kjara sem ákveðin hefur verið. Ég hef lýst þeirri skoðun minni hér og fleiri samfylkingarþingmenn að við teljum að við eigum að gera svo nú.

Hverjir eru þessir æðstu embættismenn sem falla undir Kjaradóm og munu verða fyrir því að lækka í launum eða hækka minna en sambærilegar stéttir? Fyrir utan okkur þingmenn og ráðherra er það forseti Íslands, forseti Hæstaréttar, aðrir hæstaréttardómarar, ríkissaksóknari, ríkissáttasemjari, ríkisendurskoðandi, biskupinn yfir Íslandi, dómstjórinn í Héraðsdómi Reykjavíkur, aðrir dómstjórar, héraðsdómstjórar og umboðsmaður barna. Þetta er sá hópur sem hefur verið settur undir Kjaradóm og mun því, ef frumvarpið verður að lögum, verða fyrir skerðingu á sínum kjörum í samanburði við viðmiðunarstéttir.

Nú mun þetta frumvarp ganga til efnahags- og viðskiptanefndar og þar þurfum við að sjálfsögðu að skoða helstu ástæður fyrir úrskurði Kjaradóms. Það hlýtur að vera mikilvægt fyrir okkur að greina eins nákvæmlega og hægt er hver launaþróunin hjá hinu opinbera og einnig á almennum markaði hefur verið síðustu tvö ár. Ef úrskurður kjaranefndar frá 28. júní er skoðaður og þær forsendur sem þar koma fram er alveg augljóst að kjaranefnd og Kjaradómur eru að reyna að taka tillit til launaskriðs hvort sem það er vegna samkeppni á vinnumarkaði, stofnanasamninga eða annarra atriða. Í úrskurði sínum frá 28. júní er kjaranefnd að færa kjör þeirra aðila sem heyra undir kjaranefnd til samræmis við launabreytingar og launaskrið sem orðið hefur frá því um áramótin 2005 og fram til júní.

Þessi ákvörðun kjaranefndar er afturvirk frá 1. febrúar og endar í 4,5% en kjaranefndin segir að þessi úrskurður sé til kominn vegna þess að hinn 26. apríl árið 2005 staðfesti þáv. hæstv. fjármálaráðherra samkomulag við 24 stéttarfélög innan BHM um kjarasamninga félaganna sem undirritaður var 28. febrúar sl. og samþykktur af einstökum félögum í mars og apríl. Í samkomulaginu sem hæstv. fjármálaráðherra gerði fyrir hönd ríkisins felst kerfisbreyting. Frá 1. maí 2006 verður tekin upp ný launatafla sem er sameiginleg fyrir félögin. Samhliða verða teknar upp fleiri breytingar á launakerfinu. Með öðrum orðum er verið að segja okkur í þessum úrskurði að talsverðar breytingar séu fram undan á árinu 2006. Samt sem áður liggur nú fyrir frumvarp til laga frá hæstv. ríkisstjórn þar sem vald Kjaradóms og kjaranefndar til þess að fylgjast með breytingum á launum þeirra hópa sem þeir aðilar sem kjaranefnd og Kjaradómur ákvarða laun fyrir bera sig saman við. Það er verið að hefta kjaranefnd og Kjaradóm í því að fylgja launaþróuninni eins og hún verður samkvæmt sérstöku samkomulagi sem fjármálaráðherra gerði við BHM og mun fara að tikka 1. maí 2006, vegna þess að í frumvarpinu segir að kjaranefnd og Kjaradómur megi ekki taka tillit til annarra breytinga en umsaminna lágmarksbreytinga á vinnumarkaði allt þetta ár, allt árið 2006.

Við hljótum að velta því fyrir okkur í alvöru þegar við horfum yfir þetta frumvarp til laga sem ríkisstjórnin kemur hér inn með hraði eftir mikla og óvægna umræðu — umræðu sem á fullan rétt á sér í ljósi þess sem fram hefur komið eftir að menn fóru að skoða forsendur Kjaradóms — hvernig á því stendur að þetta kemur inn með þessum hætti. Hvers vegna var ekki hægt að verða við mjög eindregnum óskum okkar í stjórnarandstöðunni um að fresta hreint og klárt úrskurði Kjaradóms eins og hann lá fyrir í desember þannig að hann tæki ekki gildi um áramótin? Þá kæmi ekki til þess að síðar á árinu og eins og nú liggur fyrir, 1. febrúar, þyrfti að skerða aftur laun eða taka til baka hækkanir sem fólk var búið að fá greitt út í sín launaumslög. Það hlýtur alltaf að vera verra að þurfa að gera það. Ef farið hefði verið að okkar ráðum værum við í betri stöðu núna. Ef gildistöku úrskurðarins hefði verið frestað hefðum við nú tíma til þess að velta því fyrir okkur hvernig best væri að breyta ákvörðun launa þeirra hópa sem heyra undir Kjaradóm og kjaranefnd og hvernig við vildum sjá þau mál í framtíðinni. Við þyrftum ekki að vera á handahlaupum eins og við erum núna.

Frú forseti. Við munum, eins og ég segi, örugglega fara vel yfir þetta mál í efnahags- og viðskiptanefnd, ég held að það sé full ástæða til þess. Það er talsverður tími fram til 1. febrúar þannig að ekki liggur lífið á að klára þetta á einum eða tveimur dögum. Við verðum okkar vegna, vegna þeirra sem eru í Kjaradómi, vegna þeirra sem sitja í kjaranefnd og vegna þeirra tæplega tvö þúsund einstaklinga sem verða fyrir því að fá lægri útborguð laun í febrúar en janúar, að skoða í alvöru af hverju mál eru svona komin.