132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[15:43]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég á sæti í efnahags- og viðskiptanefnd sem fær það frumvarp sem við ræðum hér, um Kjaradóm og kjaranefnd, til umfjöllunar. Ég vil láta það koma fram að við fulltrúar Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd munum auðvitað greiða fyrir þessu máli eins og kostur er til að það fái afgreiðslu úr nefndinni þannig að það geti tekið gildi eins og hér er gert ráð fyrir og þessi umdeildi úrskurður og ákvæði þessa frumvarps geti tekið gildi miðað við 1. febrúar. Ég vil þó segja að það er mjög nauðsynlegt að við fáum eins eðlilegt svigrúm og kostur er til að fjalla um málið í efnahags- og viðskiptanefnd. Vænti ég þess að stjórnarmeirihlutinn verði við óskum okkar um þá sem við þurfum að kalla til til fundar við okkur þannig að við höfum eðlilegt svigrúm, sem ég held að við ættum að geta haft, til að fjalla með sómasamlegum hætti um þetta mál.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að ræða kjaramálin í þjóðfélaginu og þá gliðnun sem hefur orðið í tekjuskiptingunni, m.a. vegna stjórnvaldsákvarðana í tengslum við þetta frumvarp sem felur í sér að fella úr gildi ákvörðun Kjaradóms frá 19. desember 2005. Ég held að það sé líka full ástæða til þess að við skoðum launakerfi ríkisins almennt og gegnsæi þess og launastefnu ríkisvaldsins almennt, til að mynda að við reynum að meta hvort hún stuðli að launajöfnun kynjanna og hvort launastefna ríkisins stuðli að gliðnun milli hátekju- og lágtekuhópanna hjá hinu opinbera eins og við sjáum um allt þjóðfélagið. Ég held að við verðum að gefa okkur tíma í efnahags- og viðskiptanefnd til að skoða þá hlið á málinu en einblína ekki einungis á efnisatriði 1. gr. þessa frumvarps sem hér er til umfjöllunar.

Ég tel að sú óánægja sem braust út í þjóðfélaginu vegna úrskurðar Kjaradóms hafi verið réttmæt, ekki síst þegar hún er skoðuð í því andrúmslofti aukinnar misskiptingar sem verið hefur í þjóðfélaginu á undanförnum mánuðum og missirum þar sem stjórnendur á fjármálamarkaði til að mynda hafa verið í fararbroddi fyrir launakjörum, starfsloka- og kaupréttarsamningum sem eru fullkomlega úr tengslum við allan raunveruleika í þjóðfélaginu og af þeirri stærðargráðu að fólki blöskrar og er fullkomlega misboðið. Í nafni stöðugleika er því sífellt haldið að launafólki að ekki sé svigrúm til launahækkana og það verði að sætta sig við hóflegar launahækkanir. Því er eðlilegt að upp úr sjóði þegar þeir betur settu og hærra launuðu í ríkiskerfinu fá til sín meiri launahækkanir en það og sumir það miklar að segja má að þær slagi í sumum tilvikum hátt upp í lágmarkslaun í landinu.

Virðulegi forseti. Ég tel að ekki sé við Kjaradóm að sakast þó að niðurstaða hans hafi orðið á þann veg sem hún varð. Ég held að það sé rétt sem fram hefur komið hjá formanni dómsins að kjaradómsmenn fóru í einu og öllu að lögum við þennan úrskurð. Ég hef skoðað þetta mál nokkuð, bæði með tilliti til þessa úrskurðar og þess úrskurðar sem kveðinn var upp árið 1992. Það er sannfæring mín að Kjaradómur hafi í einu og öllu farið að þeim lögum og lagafyrirmælum sem honum er gert að fara eftir. Varðandi þessa ákvörðun Kjaradóms er kannski einungis hægt að benda á að í upphafi árs var ekki úrskurðað í Kjaradómi með líkum hætti og í kjaranefnd. Mig minnir að það hafi verið 3% hækkun til þess hóps sem Kjaradómur ákveður laun fyrir og þess vegna kemur fram veruleg hækkun nú þegar Kjaradómur ætlar raunverulega að bæta kjaradómsfólki það upp að hann hafi ekki úrskurðað þá hækkun sem kjaranefndarfólk fékk í upphafi árs 2004.

Mig langar, virðulegi forseti, að nýta aðeins tíma minn til að ræða þá gliðnun sem orðið hefur í þjóðfélaginu og af hverju niðurstaða Kjaradóms og kjaranefndar er með þeim hætti sem við stöndum frammi fyrir og er komin inn á borð okkar þingmanna til að veita lagastoð og kalla þann úrskurð aftur. Við sjáum aftur og aftur hvernig láglaunahóparnir, lægst launaða fólkið á vinnumarkaðnum, t.d. í umönnunarstörfunum, hafa orðið undir sem orðið hefur með aukinni markaðs- og alþjóðavæðingu sem breikkað hefur bilið milli ríkra og fátækra og birtist okkur m.a. í aukinni stéttaskiptingu í þjóðfélaginu. Við höfum áþreifanlega orðið vitni að því í vetur hvernig mannekla í umönnunarstörfum bitnar á mörgum barnafjölskyldum í landinu vegna lélegra launakjara og hvernig flótti brestur á í þessum starfsstéttum þegar þensla er á vinnumarkaðnum. Laun og kjör umönnunarstétta eru í raun til skammar og langt undir öllum velsæmismörkum. Það er líka fyrir neðan allt velsæmi hvernig margir atvinnurekendur og aðrir reka ávallt upp ramakvein ef gerð er tilraun til að bæta kjör þessara hópa, eins og borgarstjórinn gerði með svo myndarlegum hætti fyrir skömmu og mættu margir taka sér borgarstjórann til fyrirmyndar, vegna þess að það er orðið knýjandi í þjóðfélaginu að setjast yfir það hvernig við getum bætt kjör láglaunafólks og fólks með meðaltekjur án þess að það renni upp allan launastigann þar sem þeir fá mest sem mest hafa fyrir. Það er full ástæða til að menn skoði það í efra lagi þessa launakerfis hvort skapast geti einhver sátt um að frysta hæstu launin í stjórnsýslunni, hjá ráðherrum, þingmönnum og embættismönnum, um einhvern tíma sem yrði þá nýttur til að hækka upp þá sem lægst eru settir í launastiganum hjá hinu opinbera. Ég held að við verðum að hugleiða það af fullri alvöru vegna þess að við sjáum afleiðingar þess að bíða í þjóðfélaginu þegar við getum ekki mannað mikilvæg umönnunarstörf eins og raun ber vitni og við höfum séð í vetur.

Stjórnvöld eiga líka verulegan þátt í þeirri gliðnun sem orðið hefur í þjóðfélaginu sem vert væri að ræða, bæði með skattatilfærslum frá lágtekju- og meðaltekjufólki yfir til fjármagnseigenda og fyrirtækja. Það væri alveg tilefni til þess að fara hér yfir það hvernig ríkisvaldið hefur stuðlað að tekjutilfærslu í þjóðfélaginu og þar með átt drjúgan þátt í að skapa þá gliðnun sem orðið hefur, m.a. með þeim skattbreytingum sem hér hafa verið gerðar á umliðnum mánuðum og missirum þar sem verulegum fjármunum hefur verið varið til skattalækkana sem fyrst og fremst hafa skilað sér til þeirra sem betur eru staddir í þjóðfélaginu. Auðvitað er til skammar að þeir sem lægstar hafa tekjurnar séu allt í einu farnir að borga hlutfallslega miklu meiri skatta en þeir gerðu fyrir nokkrum árum og að af 120 þús. kr. séu kannski teknar 10–13 þús. kr. í skatt. Þetta hefur auðvitað gerst að verulegu leyti með því að skattleysismörkin hafa ekki fylgt neysluvísitölu eða launavísitölu og munar þar tugum milljarða króna sem hafa verið nýttir til að létta skattbyrðina á þeim sem betur hafa það. Það er ástæða, virðulegi forseti, að halda því til haga í þessari umræðu vegna þess að þetta er líka umræða um tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu og ástæðulaust að einblína eingöngu á þá lagagrein sem hér er til umfjöllunar. Við þurfum að setja hana í víðara samhengi. Það er einnig ljóst að öryggisnet velferðarkerfisins hefur gliðnað, ójöfnuður hefur vaxið mikið þrátt fyrir efnahagsuppsveiflu á liðnum árum og er skýrsla Stefáns Ólafssonar um lífskjör öryrkja kannski ekki síst til marks um það.

Á þeim úrskurði Kjaradóms sem við fjöllum hér um eru auðvitað margar hliðar. Eins og ég sagði áðan er það skoðun mín að Kjaradómur hafi ekki farið út fyrir þær leiðbeiningar og lagafyrirmæli sem hann starfar eftir. Í lögum um Kjaradóm og kjaranefnd eru ákvæði um að báðir þessir úrskurðaraðilar eiga við ákvörðun launakerfa að gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum hjá þeim sem hún fjallar um þannig að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar. Kjaradómur á síðan að taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði. Kjaranefnd á að gæta að samræmi sé milli launa hjá þeim sem hún ákveður laun fyrir og þeirra launa sem greidd eru hjá ríkinu á grundvelli kjarasamninga. Í ljósi þessa úrskurðar er líka athyglisvert að kjaranefnd á samkvæmt lögum að sjá til þess að samræmi sé í launaákvörðun nefndarinnar og launaákvörðun Kjaradóms en hugsunin er vafalaust sú að Kjaradómur leggi línurnar. En við upplifðum nákvæmlega annað núna við þessa ákvörðun að Kjaradómur hafði m.a. hliðsjón af ákvörðunum kjaranefndar.

Ég held að það eigi líka alveg við, virðulegi forseti, að rifja upp árið 1992 þegar Kjaradómur felldi úrskurð þar sem kjaradómsfólki var ákveðin launahækkun sem fól í sér allt að 97% hækkun á launum þjóðkjörinna fulltrúa og embættismanna sem síðar var breytt með lögum í 1,7% hækkun til samræmis við það sem gerst hafði á almennum vinnumarkaði. Það er líka rétt að nefna, sem er mjög athyglisvert, að eftir að Alþingi hafði breytt þeim úrskurði með lögum og falið Kjaradómi að kveða upp annan úrskurð á grundvelli þeirra laga sem þá voru sett, sem var 1,7% hækkun, og velja átti fólk í Kjaradóm á nýjan leik, þá færðust kjaradómsmenn undan endurkjöri. Þetta var að mig minnir í janúar 1993. Það er athyglisvert að skoða þau rök sem sett voru fram af þeim sem skipuðu Kjaradóm og ástæðuna fyrir því að kjaradómsmenn færðust undan endurkjöri árið 1993. Ástæðan var sú að þeim þóttu lögin jaðra við að vera marklaus og að þau væru mjög óskýr og ekki væri auðséð hvernig alþingismenn ætluðust til að lögin væru túlkuð, en lögin einkenndust af því að þær reglur sem settar voru í einni setningu voru ómerktar í þeirri næstu. Þegar til þess er litið eiga alþingismenn auðvitað nokkra sök á þeirri stöðu sem nú er komin upp þegar slík lög hafa verið látin standa óbreytt í meira en áratug. Það hefur raunverulega allt komið fram sem kjaradómsmenn sögðu árið 1993 þegar þeir færðust undan endurkjöri, að lögin sem Kjaradómur er að dæma eftir núna eru á margan hátt óskýr og erfitt að úrskurða eftir þeim. Þetta ætti að kenna okkur ákveðna lexíu þegar farið verður að skoða hvernig framtíðarfyrirkomulag verður við ákvörðun þeirra launa sem Kjaradómur og kjaranefnd hafa ákveðið. Ég held að menn hafi þó lært það af því, hver svo sem niðurstaðan verður, að ef þetta verður í þessum farvegi áfram verði Kjaradómur og kjaranefnd sameinuð í einn dóm eða eina nefnd því að við sjáum hvað það býður upp á að hafa lögin með þeim hætti sem við upplifum hér núna.

Það er líka athyglisvert að rökstuðningur dómsins árið 1992 var með líkum hætti og nú. Þegar dómurinn hafnaði tilmælum þáverandi forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, um að endurskoða úrskurðinn kom fram að mikið ósamræmi væri eða hefði orðið í kjörum þeirra sem dómurinn ákvað laun fyrir og launaskriði sem m.a. fjármálaráðuneytið hafði þá staðið fyrir hjá sambærilegum hópum innan ríkiskerfisins. Engin lagaleg eða efnisleg rök væru því fyrir endurskoðun eða breytingu, sagði Kjaradómur árið 1992. Engin lagaleg eða efnisleg rök, sagði Kjaradómur þegar hann var beðinn um af forsætisráðherra að endurskoða úrskurðinn. Með nákvæmlega sama hætti segir Kjaradómur nú að engin efnisleg eða lagaleg rök séu fyrir breytingu. Kjaradómur var þá eins og nú að fara að lagafyrirmælum og þurfti þá eins og nú að glíma við innbyrðis ósamræmi í launakjörum sem ríkisstjórn og ráðherrar höfðu sjálfir staðið fyrir. Þess vegna á forsætisráðherra auðvitað ekki að undra það neitt sérstaklega þegar Kjaradómur kveður upp þennan úrskurð, eins og fram kom hjá hæstv. forsætisráðherra þegar þessi úrskurður lá fyrir. Auðvitað er það svo að alþingismenn eiga nokkra sök á þessari stöðu eins og ég nefndi miðað við það að hafa látið lögin standa óbreytt í meira en áratug þrátt fyrir að þau hefðu verið verulega gagnrýnd á sínum tíma.

Það kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, Jóni Gunnarssyni, að þetta frumvarp mun líka skerða að einhverju leyti kjör þeirra sem taka laun samkvæmt úrskurði kjaranefndar. Ég er ekki viss um að allir átti sig á því að þessi lög taka líka til þeirra þannig að þau munu skerða einingar hjá því fólki sem hefur hluta af launum sínum í formi þessara greiðslna eða eins og segir í frumvarpinu en það kom fram í því að þetta ætti líka að taka til einingagreiðslna, með leyfi forseta:

„Frá sama tíma skulu mánaðarlaun og einingar samkvæmt úrskurði Kjaradóms frá 9. júní 2005 hækka um 2,5%.“

Það þýðir að einingar kjaranefndarfólks munu einnig skerðast, auk þess sem ákvæði 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins felur í sér að verið er að frysta hækkanir hjá kjaradómsfólki og einnig fólki sem fær laun sín samkvæmt úrskurði kjaranefndar frá og með gildistöku laga þessara til loka árs 2006. Eiga launin að taka mið af samningsbundnum hækkunum kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði.

Ég held að við ættum kannski að skoða það svolítið hvort ekki sé ástæða til að hafa meira gegnsæi í launastefnu ríkisins og spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki ástæðu til að hafa meira gegnsæi í launastefnu ríkisins, t.d. varðandi þessar einingagreiðslur. Laun sem Kjaradómur ákveður er aðeins hluti launa hjá flestöllum sem hann ákvarðar laun fyrir nema hjá ráðherrum og þingmönnum og getur kjaradómsfólk haft allt að tæplega 270 þús. kr. fyrir þessar einingar auk sinna föstu launa. Ég spyr hvort ekki sé eðlilegt að hafa þetta gegnsætt og opið þannig að þessar einingagreiðslur séu þá ekki úrskurðaðar heldur falli bara inn í föst laun viðkomandi aðila sem ég held að væri mjög æskilegt að skoða sérstaklega.

Ég þarf út af fyrir sig, virðulegi forseti, ekki að hafa mörg fleiri orð um frumvarpið sem við fjöllum um. Það er alveg ljóst, eins og fram kom hjá t.d. síðasta ræðumanni, að þeir sem eru undir Kjaradómi lækka í launum líkt og þingmennirnir og hafa sumir sagt að þeir gjaldi fyrir það að vera undir úrskurði Kjaradóms með líkum hætti og þingmenn og ráðherrar. Hefði verið hreyft við þessum launahækkunum ef þeir væru ekki í hópi með þingmönnum og ráðherrum? Ég man ekki eftir því, þó að það hafi verið úrskurðað hjá kjaranefnd, að það hafi verið neinn órói í kringum þá hækkun til þeirra kjaranefndarmanna enda dreifðist sú hækkun meira. En það er auðvitað eðlilegt og sjálfsagt að fara þá leið að leggja til í frumvarpinu, eins og hér er lagt til, að breyta þessum úrskurði Kjaradóms. Það er spurning hvaða leið á að fara í því efni og hvort sú leið sem hér er lögð til — og það viljum við skoða alveg sérstaklega — standist lagafyrirmæli og hvort hún standist það að allir séu jafnir fyrir lögum og hvort hún standist líka stjórnarskrána.

Hér eru fjórar mínútur eftir í ræðustólnum en ljósið blikkar á mig.

(Forseti (JBjart): Það mun vera ósamræmi á milli klukku í tölvu hjá forseta og í ræðupúlti en klukkan hjá forseta mun vera sú rétta og samkvæmt því er ræðutíma hv. þingmanns lokið.)

Þetta er náttúrlega mjög óheppilegt, virðulegi forseti, að ég horfi hér á klukku sem gefur mér fjórar mínútur sem ég átti eftir að …

(Forseti (JBjart): Forseti vill gefa þingmanninum kost á að ljúka ræðu sinni en þó innan þeirra marka sem greint var frá.)

Ég þakka fyrir.

Það sem ég vildi segja í lokin er að við skoðum sérstaklega ákvæði stjórnarskrárinnar í þessu sambandi vegna þess að ég held að við verðum að líta til þess að í Kjaradómi og kjaranefnd er unnið eftir sambærilegum lagafyrirmælum. Þeir sem fá úrskurð sinn samkvæmt niðurstöðu kjaranefndar hafa fengið á þessu tímabili hærri laun en kjaradómsfólkið og því er hugsanlegt að einhverjir þeir sem Kjaradómur úrskurðar laun fyrir leiti réttar síns fyrir dómstólum verði þessi lög sett og það verðum við auðvitað að ganga úr skugga um í efnahags- og viðskiptanefnd, að þau lög sem við setjum í þessu efni standist stjórnarskrána og standist lög þannig að allir séu jafnsettir fyrir lögum. Ég minnist þess að þegar sambærilegur úrskurður eða líkur þessum var kveðinn upp árið 1992 risu dómarar upp og sögðu að mjög væri vegið að sjálfstæði dómstólanna og er vel hugsanlegt að það sama muni gerast varðandi þá breytingu sem hér er lögð til og við gætum alveg staðið frammi fyrir því að það muni ekki allir una þessari niðurstöðu. Þess vegna er mikilvægt að við fáum svigrúm til þess í efnahags- og viðskiptanefnd að skoða það að við séum sæmilega örugg fyrir því að þau lög sem við setjum standist stjórnarskrána og ákvæði hennar um að allir skuli jafnir fyrir lögum þegar við erum með fyrir framan okkur lög sem taka bæði til kjaradómsfólks og kjaranefndarfólks, að því hafa verið úrskurðuð misháar launahækkanir á þessu tímabili.