132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[17:39]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að hæstv. ráðherra skuli staðfesta þann skilning minn að frumvarpið geti haft talsverð áhrif á hinn stóra hóp sem heyrir undir kjaranefnd. Annað langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um: Með hvaða rökum svarar hann t.d. hæstaréttardómurum varðandi frumvarpið sem hér liggur fyrir? Telur hann rétt að þeir lækki í launum miðað við viðmiðunarhópa?

Í maí 2003 var hæstaréttardómurum skipað í launaflokk 137 eða hliðstætt því. Í þeim flokki í kjaranefnd var ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins. Verði þetta frumvarp að lögum mun ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins eftir sem áður halda sínum föstu launum. Þar verður ekki breyting. En hæstaréttardómari sem átti að taka laun miðað við launaflokk 137 mun fá laun miðað við launaflokk á milli 135 og 136. Með hvaða rökum rökstyður ráðherra svona ákvörðun?