132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[17:42]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú einu sinni þannig í samfélagi okkar að það er mikilvægt að við fylgjum þeim lögum og reglum sem gilda hverju sinni. Ég held að Aristóteles hafi einhvern tímann orðað það þannig að rétt væri að fylgja jafnvel ranglátum lögum, einfaldlega til að ekki verði grafið undan þjóðskipulaginu eða regluverkinu sem gildir hverju sinni. (Gripið fram í: Sókrates.) Það gæti hafa verið Sókrates sem sagði það. Mig minnti að það hefði verið Aristóteles en við skulum ekki gera það að umræðuefni hér.

Af þessum sökum, m.a. á grundvelli þessara fullyrðinga, langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í nokkuð. Hann leggur fram þetta frumvarp sem fjallar m.a. um laun forseta Íslands. Alveg sama hvaða skoðun menn hafa á forseta Íslands, hvort menn eru sáttir við hann í embætti eða ekki, þá verðum við að virða það að í stjórnarskránni er mjög skýrt ákvæði sem segir að óheimilt sé að lækka laun forseta á kjörtímabilinu. Nú hafa laun forseta Íslands verið hækkuð og ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann standi að fullu við að tiltekin lögskýringargögn (Forseti hringir.) gangi framar skýru orðalagi stjórnarskrárinnar, ákvæði hennar.