132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[17:46]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst þetta mjög ótilhlýðilegt. Og jafnvel þó að núverandi forseti Íslands hafi setið á Alþingi og við höfum tekist á um ýmis málefni og það sé auðvitað ljóst að við séum ekki sammála um alla hluti, þá kannast ég ekki við að ég hafi nokkurn tíma gefið tilefni til þess að það hvarflaði að hv. þingmönnum að ég færi að beita einhverju í störfum mínum til að klekkja á forsetanum. Mér þykir mjög miður ef það er orðið að einhverju sérstöku umræðuefni hér og ég er sannfærður um að það hvarflar ekki að forsetanum heldur að svo sé.

En fyrst hv. þingmaður spyr hins vegar svona nákvæmlega um þetta verð ég að minna á að 1992, þegar við tókum á málum á svipaðan hátt, var þetta gert á nákvæmlega þennan hátt eða ekki nákvæmlega en að breyttum aðstæðum þá var launum forsetans breytt á þennan hátt og þá var atkvæðagreiðsla um það í þinginu. Ég greiddi atkvæði með því þá eins og ég mun gera núna og það gerðu fleiri þingmenn, þar á meðal hæstv. forseti og hv. formaður þingflokks Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) sem voru sammála mér þá um þetta atriði stjórnarskrárinnar og eru það vonandi enn þá.