132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[17:47]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Stóru drættirnir, launabilið í samfélaginu, gliðnunin á milli hinna ríku og fátæku var inntakið í ræðu minni. Hæstv. ráðherra vék að í því ræðu sinni síðast að það hafi verið ámælisvert eða svo mátti skilja af máli hans að honum hafi þótt ámælisvert af stjórnendum Reykjavíkurborgar að hækka laun þeirra ófaglærðu á leikskólum Reykjavíkurborgar sem lægst höfðu launin. Hann nefndi í því sambandi að þetta væri nánast náttúrulögmál, nefndi Mesópótamíu til sögunnar og þetta hafi verið eilíft baráttumál, það gengi bara ekki að minnka þetta bil eða að ná lægstu laununum upp.

Nú langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra, því að með þessu sem hann segir finnst mér hann vera að gera þá sem lægst hafa launin að ákveðnum blórabögglum hvað varðar efnahagsmálin og óstöðugleikann í samfélaginu: Er hæstv. ráðherra þeirrar skoðunar að hækkun lægstu launanna sé líkleg til að ógna stöðugleikanum í samfélaginu umfram það sem háu launin gera?