132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[17:54]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það sem þetta snýst í rauninni um er að Kjaradómur og kjaranefnd hafa á ákveðnu tímabili tekið á mismunandi hátt á ákveðinni launaþróun sem hefur orðið annars staðar í þjóðfélaginu og það hefur gerst í tvígang. Annars vegar þegar Kjaradómur hefur ekki hækkað laun en kjaranefnd hefur hækkað laun og hins vegar þegar Kjaradómur hefur hækkað laun minna en kjaranefnd og þá raskast hið svokallaða innra samræmi sem um er að ræða. Það er nefnd Jóns Sigurðssonar sem er ætlað að fara ofan í það hvernig við komum í veg fyrir að slíkir hlutir gerist.

Það sem ég var hins vegar að benda á í ræðu minni er að það er verið að gagnrýna fjármálaráðherra fyrir að hækka laun opinberra starfsmanna en síðan er sagt að verðugur sé verkamaður launa sinna. Menn bæði gagnrýna hækkunina og svo segja þeir líka að menn eigi að hafa þessi háu laun.