132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[18:12]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að margir þingmenn eru ekki á þingi vegna launanna. Ég hef því miður oft heyrt af því í prófkjörum þegar ég hef reynt að fá fólk til að bjóða sig fram að það segist ekki hafa efni á því. Það segir að það sé með svo miklar námsskuldir og annað slíkt og að það mundi lækka mikið í launum við að fara á þing. Það er miður.

Auðvitað þarf að vera sátt um þau laun sem Alþingi ákveður. Það er fráleitt ef ákveðið er að launin séu núll því að þá mundu þeir einir sækja um að vera þingmenn sem hefðu efni á því og hefðu nægilegar eignir eða tekjur annars staðar. Það væri líka neikvætt. Þetta þurfum við að hafa í huga.

En ég held að ná þurfi ákveðinni sátt í þjóðfélaginu um hvernig menn vilji launa hásetana á þessari skútu og hvernig menn vilja hafa hana mannaða.