132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[18:15]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við erum hér að ræða frumvarp um að afnema svokallaða ákvörðun Kjaradóms. Það hefur verið nefnt m.a. af hæstv. fjármálaráðherra að umræðan sé full af tvískinnungi. Ég get tekið undir það. Ég vil að menn velti fyrir sér hvers vegna við erum að afnema þessa 8% hækkun og koma henni í samræmi við það sem gerist á almennum vinnumarkaði. Talað er um að það sé verið að rjúfa einhverja sátt í þjóðfélaginu. Það er mjög sérstakt að heyra það hér frá fulltrúum ríkisstjórnarinnar sem hafa í rauninni verið að auka misskiptingu í þjóðfélaginu. Skattar hafa verið lækkaðir á þeim sem hafa háu launin en hækkaðir hlutfallslega á þeim sem hafa lágu launin. Og síðan þegar einhver svona mál lenda í kastljósinu, þá verða menn vandræðalegir og reyna jafnvel að drepa umræðunni á dreif. Það er margt mjög undarlegt í aðdraganda þessa máls, frú forseti, t.d. þegar hæstv. forsætisráðherra biður umræddan Kjaradóm, ræðir við formanninn, að endurskoða málið út frá sömu forsendum og hann hafði áður. Ég verð að segja að eftir að hafa lesið bréf formanns Kjaradóms, mjög gott bréf sem hann ritaði hæstv. forsætisráðherra á aðfangadag, þá skil ég að mörgu leyti hvers vegna ekki var hægt að endurskoða ákvörðunina. En hvað verður til þess að það var ekki hægt? Jú, það eru verk ríkisstjórnarinnar. Verk ríkisstjórnarinnar sem ég hafði rakið hér fyrr í andsvörum, það var sú ákvörðun að hækka laun í kjarasamningum og einnig sú ákvörðun kjaranefndar að hækka laun jafnvel afturvirkt á miðju síðasta ári, laun embættismanna sem voru í einhverjum viðmiðunarhópum. Þegar kjaranefnd miðar við suma hópa sem hækka þá verður þetta eins og einhver víxlverkun og allir hækka og slík umræða um kjaramál endar með ósköpum. Að vissu leyti má styðja það að menn fari í þessa vinnu og endurskoði öll þessi launakjör. En út frá þeim forsendum að fara að ákvarða aftur og biðja formann Kjaradóms að ákveða aftur eins og hæstv. forsætisráðherra óskaði eftir, það er mjög barnalegt. Maður furðar sig á því að honum skuli detta þetta í hug í stað þess, ef þetta var svona brýnt og aðkallandi, þá átti auðvitað að kalla þing saman og taka á þessu áður en úrskurðurinn náði fram að ganga.

Það er margt sem mjög athyglisvert í þessu bréfi frá formanni Kjaradóms, Garðari Garðarssyni. Þar rekur hann hvers vegna hækkunin varð svona mikil, 8% hækkunin. Það má m.a. rekja til áramótanna 2003 þegar hér voru sett eftirlaunalög. Eftir að þau höfðu verið sett og valdið mikilli ólgu í samfélaginu, þá treysti Kjaradómur sér ekki til að hækka laun alþingismanna og æðstu embættismanna vegna þeirrar ólgu. Þannig að það var verið að taka þá hækkun út núna með þessum dómi sem kemur tveimur árum síðar. Þetta er mjög athyglisvert sérstaklega í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra sagði eftir að þau lög voru sett að nú ætti að taka á því að menn geti ekki verið á eftirlaunum í fullu starfi hjá ríkinu. En hvað hefur gerst? Hefur maðurinn eitthvað gert í því? Hann hefur sagst gera það en síðan runnið á rassinn með það. Ég á eftir að sjá hvort hann renni á rassinn með þessa vinnu eða hvort þetta fari hér í gegnum þingið, þessi lækkun og hækkunin seytli svo út aftur einhvern tímann seinna. Eða hvort það verði raunverulega tekið á málinu.

En ég get vissulega tekið undir að það er ákveðinn tvískinnungur í umræðu um kjaramál. Ég vil þá fyrst og fremst tala um verkalýðshreyfinguna í þeim efnum. Hún hefur látið hvað hæst þegar verið er að hækka laun og jafnvel í fyrirtækjum sem eru á markaði þar sem menn fá starfslokasamninga. Þar fá menn borgað fyrir að hætta í vinnunni, fá fyrirframsamninga, jafnvel upp á heilan milljarð, eins og forstjóri FL Group, en mér skilst að hann fái 198 millj. á ári ef hann nær að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til hans. Svo háar upphæðir snerta almenning. Hagnaður af reglulegri starfsemi svona fyrirtækis er langt frá því að vera í þessum háu hæðum. Þetta er allt meira og minna óinnleiddur gengishagnaður sem menn eru að gera út á og spila með fram og aftur. En það sem er kannski sérkennilegt í þessu er að verkalýðshreyfingin lætur hátt á sama tíma og hún er að fjárfesta í fyrirtækjum sem hún gagnrýnir, í fyrirtækjum sem gera starfslokasamninga upp á 300 millj. fyrir tvo fyrrum forstjóra. Þetta er auðvitað algerlega ólíðandi. Ríkisstjórnin þykist vera að halda friðinn með þessari gjörð. En því miður þarf meira til. Það þarf að taka á kjörum eldri borgara. Það þarf að taka á kjörum öryrkja. Það gengur ekki að vera með það sem mér sýnist að megi kalla sýndargjörð að mörgu leyti. Það er verið að hækka skatta á öryrkja og lækka skatta á hátekjuhópa. Síðan kemur svona frumvarp inn þar sem menn segjast ætla að taka á því að vera ekki að rjúfa friðinn í samfélaginu þegar stöðugt er verið að breikka bilið. En ekki nóg með það, þegar spurt er út í hver þróunin yrði ef eða þegar ríkisstjórnin hefur náð að hrinda í framkvæmd stefnumálum sínum í skattamálum, þá fást engin svör hjá ríkisstjórninni. Það er eins og þau laun sem verið er að lækka hér séu málið. En ég er einfaldlega á því að þetta sé sýndarmennska.

En það verður fróðlegt að vita hvort farið verði gaumgæfilega í gegnum forsendur fyrir þessari hækkun Kjaradóms og við í Frjálslynda flokknum munum fylgja því eftir að svo verði gert. Því eins og áður segir þá kemur fram að rekja megi hækkunina til aðgerða ríkisstjórnarinnar og einnig að launaþróun hefur verið hærri en sú hækkun sem orðið hefur á kjörum æðstu embættismanna þjóðarinnar á þessu tímabili sem var tekið til viðmiðunar í bréfi formanns Kjaradóms.

En eflaust verður farið gaumgæfilega í gegnum þetta mál og einnig þetta undarlega fyrirbæri sem Kjaradómur er. Það er nauðsynlegt að menn séu ekki með Kjaradóm og kjaranefnd og síðan þurfi að endurraða og að gæta einhvers samræmis á milli nefnda og á vegum ríkisins. Það er orðið löngu tímabært að það verði í raun farið í gegnum þessa vinnu. Einnig tel ég að það sé vafasamt að sumir af þessum embættismönnum eigi í rauninni að heyra undir Kjaradóm. T.d. eins og umboðsmaður barna. Ég veit í rauninni ekki hvað við erum að gera við þetta embætti lengur. Hvaða tilgangi það þjónar yfirleitt í stjórnsýslunni. Mér finnst í raun tímabært að fara að skoða það með gagnrýnum huga, það er ekki einu sinni hægt að auglýsa starfið með viðunandi hætti. Hæstv. forsætisráðherra fékk ádrepur frá umboðsmanni Alþingis um hvernig hann stóð að því. Síðan virðist sem tilgangur og forsenda fyrir embættinu sé mjög vafasamur, tilgangslítið embætti sem kostar þjóðfélagið háar upphæðir. Við sjáum fleiri dæmi um hvernig má spara hjá ríkinu og hvort að menn séu í rauninni að blása ríkið út t.d. með því að ákveða laun með einhverjum kjaradómum og kjaranefnd og svo verður einhver víxlverkun og hægri höndin veit varla hvað sú vinstri gerir. Og eftir að ákvörðunin hefur verið tekin þarf að leiðrétta hana. Ég veit í rauninni ekki út frá hvaða forsendum sú leiðrétting á að vera eftir að hafa lesið bréf formanns Kjaradóms um laun æðstu embættismanna.