132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Gögn með frumvarpi um Ríkisútvarpið.

[12:09]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég hef töluvert miklar efasemdir um að réttmætt sé að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag. Á sínum tíma lagði ríkisstjórnin upp með annað í farteskinu, hún ætlaði að hafa það sjálfseignarfélag í atvinnurekstri. Ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin hvarf frá því var sú niðurstaða sem kom frá ESA. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um stefnubreytingu var tekin á grundvelli gagna sem þaðan komu. Þess vegna er einfaldlega sanngjarnt að við í stjórnarandstöðunni og þingmenn eigum kost á því að meta þá stefnubreytingu og ræða þetta frumvarp á grundvelli nákvæmlega sömu gagna og ríkisstjórnin tók sína ákvörðun. Ég tel þess vegna að ekki sé hægt að hefja umræðu um frumvarpið um RÚV nema þessi gögn liggi fyrir.

Nú hefur hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, sem greinilega hefur staðið sig vel sem formaður menntamálanefndar í því að reyna að afla gagnanna, upplýst að það sé vilji ráðherrans að þau verði lögð fyrir á síðari stigum. Frú forseti, það gengur ekki upp. Við getum ekki rætt frumvarpið við 1. umr. án þess að hafa þau gögn. Það er ekki nóg að þau berist síðar. Því síður er það hægt, frú forseti, þar sem skýrt kemur fram í greinargerðinni að einhver óljós túlkun er þarna á ferð. Ég t.d. get ekki lesið út úr greinargerðinni með frumvarpinu að það sé ótvírætt að niðurstaða ESA sé á þennan veg. Því segi ég að það kemur ekki til mála að ræða frumvarpið nema þessi gögn séu til staðar við 1. umr. Mér finnst það ósvinna af þinginu ef málið er tekið til umræðu án þess að við höfum þær upplýsingar.