132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Gögn með frumvarpi um Ríkisútvarpið.

[12:11]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er í hæsta máta tortryggilegt að þessi gögn skuli ekki nú þegar vera komin í hendur okkar þingmanna. Ég staðfesti það að hv. þm. Mörður Árnason bað um, ég held ég geti nokkurn veginn fullyrt það, á hverjum einasta fundi nefndarinnar á haustþinginu að þessi gögn yrðu okkur til reiðu. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson tók því ævinlega afar ljúfmannlega og vissi aldrei annað en að gögnin væru á leiðinni og kunni engar skýringar á þeim seinagangi í afgreiðslu ráðuneytisins sem olli þeim töfum sem raun ber vitni. Og enn eru gögnin ekki komin okkur í hendur.

Nú segir hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson að það sé eitthvað verið að vinna með þau, verið sé að útfæra hinn munnlega þátt þeirra. Það er ekki boðlegt að færa okkur þau skilaboð ofan úr ráðuneyti að verið sé að útfæra þau tæknilega og það sé þess vegna sem við höfum ekki fengið þau. Það er eitthvað meira sem hangir á spýtunni. Þess vegna segi ég, frú forseti: Það er í hæsta máta tortryggilegt að við skulum ekki hafa fengið nú þegar þau gögn sem ráðuneytið sjálft hafði til þess að semja frumvarpið.

Varðandi síðan hitt hvort breyta eigi Ríkisútvarpinu í hlutafélag þá er ég sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að mögulega er það einn stærsti ásteytingarsteinninn í breytingum á Ríkisútvarpinu, þ.e. hvort vænlegt sé og hvort það sé affarasælt að fara út í slíkar breytingar. Ég er þeirrar skoðunar að það sé það ekki og ekki eigi að hrófla við rekstrarformi stofnunarinnar. Við getum gert allar þær breytingar sem við hugsanlega þurfum að gera eða verðum sammála um að gera þurfi á Ríkisútvarpinu til að efla það og styrkja án þess að rekstrarformi þess verði breytt. En til þess að taka þá umræðu í þingsölum er auðvitað ljóst að við þurfum að hafa þessi gögn frá ESA þó svo að stóri sannleikurinn um hvort Ríkisútvarpið eigi að vera hlutafélag eða ekki leynist örugglega ekki í þeim gögnum.