132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Gögn með frumvarpi um Ríkisútvarpið.

[12:15]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þingflokkur Samfylkingarinnar tekur undir þá kröfu sem hv. þm. Mörður Árnason og aðrir fulltrúar Samfylkingarinnar í menntamálanefnd hafa sett fram um að fá gögn um samskipti ESA og íslenskra stjórnvalda. Ég lít svo á að þar sé bæði um bréfleg samskipti að ræða sem og minnisblöð um munnleg samskipti. Ég lít einnig svo á, virðulegi forseti, að við séum að fara fram á að Alþingi hlutist til um það að við fáum skráningu samskiptanna frá íslenskum stjórnvöldum en einnig frá fulltrúum ESA þannig að fulltrúar okkar í menntamálanefnd sem og alþingismenn allir geti metið þau samskipti út frá sínum forsendum en ekki matreidd samskipti frá íslenskum stjórnvöldum. Okkur hefur ekki gefist það vel.

Við tökum því undir þá kröfu fulltrúa okkar Samfylkingarinnar í menntamálanefnd að þetta mál verði ekki rætt fyrr en gögnin hafa verið birt alþingismönnum, dreift til okkar allra, þannig að út frá þeim forsendum og vinnu okkar getum við metið þá niðurstöðu sem íslensk stjórnvöld komust að þegar frumvarpið um RÚV var lagt fram. Það kom fram hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, formanni menntamálanefndar, að það hefði verið fundur í síðustu viku. (SKK: Í vikunni.) Núna í vikunni, enn frekar, ég tala nú ekki um ósköpin. Það er langt síðan frumvarpið kom fram. Og það er full ástæða til þess ef íslensk stjórnvöld eru enn að ræða um fyrirkomulag þessara mála við fulltrúa ESA að við fáum að fylgjast náið með því og þangað til bíður umræðan um frumvarp RÚV.