132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Gögn með frumvarpi um Ríkisútvarpið.

[12:17]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa flutt þingmál á Alþingi sem miðar að því að treysta stöðu Ríkisútvarpsins í þjóðareigu og starfsemi þess öfluga. Það væri því mikilvægt að þetta þingmál okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs kæmi á dagskrá jafnvel á undan frumvarpi menntamálaráðherra sem mun koma fram seinna, ef það kemur þá fram.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vörum við hugmyndum ríkisstjórnarinnar um að hlutafélagavæða RÚV og finnst reyndar furðulegt að þingmenn Framsóknarflokksins skuli veita því brautargengi að flytja það mál í þinginu því að eftir því sem best er vitað hafa a.m.k. einhverjir framsóknarmenn á einhverjum flokksþingum lagst gegn því. Lágkúru- og undirlægjuháttur Framsóknarflokksins varðandi það að hlutafélagavæða RÚV virðist ekki eiga sér nein takmörk.

Hlutafélagavæðing er bara aðdragandi að því að selja. Við þekkjum það með Landssímann, hann var hlutafélagavæddur. Þá komu hástemmdar yfirlýsingar um að þetta væru bara breytingar á rekstrarformi til að styrkja rekstrarlega stöðu fyrirtækisins. Meira að segja frá þáverandi samgönguráðherra. Skömmu seinna var settur í gang söluferill, enda er það eðli hlutafélagavæðingar að það skuli selt. Þess vegna er hugmyndin nú að hlutafélagavæða RÚV, Ríkisútvarpið okkar, bara aðdragandi að því að selja það. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs erum því algerlega andvígir og teljum mikilvægt að þjóðin eigi sitt ríkisútvarp og ekki eigi að véla með það með þeim hætti sem einkavæðingarsinnar ríkisstjórnarinnar gera nú.

En það sem er enn furðulegra er að rökin fyrir því að nú er verið að koma með nýjar tillögur af hálfu ríkisstjórnarinnar um rekstrarformið skuli hafa byggst á einhverjum umsögnum eftirlitsnefndar eða dómstóls Evrópusambandsins eða EFTA en það má ekki láta þingheim fá þau gögn. Nei, einkavæðingin verður að fá að ganga óáreitt og engin gögn mega trufla hana. Það er það sem hér er á ferðinni.