132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Gögn með frumvarpi um Ríkisútvarpið.

[12:19]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætlaði einmitt að taka til máls um störf þingsins en fara ekki efnislega umræðu um sölu Símans eða hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins eins og hv. þm. Jón Bjarnason gerði í ræðu sinni og misnotaði að mínu mati þingsköp Alþingis þegar hann notaði tækifærið og tók til máls fyrir utan það hversu víðáttuvitlaus málflutningur þingmannsins var. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að fara nánar út í það en maður hefur sjaldan heyrt annað eins og hefur maður heyrt margt í gegnum tíðina en fátt eins og þetta. (Gripið fram í.)

Ef ég get fengið að halda áfram að tala fyrir frammíköllum frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni þá langar mig til að segja út af því sem fram hefur komið í umræðunni fram að þessu af því að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, nefndu það að menntamálaráðherra bæri alla ábyrgð á því að þessi gögn væru ekki komin fram þá vil ég benda hv. þingmönnum á og það eiga þeir að vita að þetta mál varðar samskipti íslenska ríkisins við ESA og mál sem varða ESA og samskipti íslenska ríkisins við þá eftirlitsstofnun heyra náttúrlega undir fjármálaráðuneytið en ekki menntamálaráðuneytið. (Gripið fram í.) Menn eru að því leyti að beina spjótum sínum að röngum aðila.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að samskipti ráðuneytanna við ESA hafa að hluta til verið óformleg og það liggja ekki fyrir skriflega öll samskipti milli þessara aðila þannig að eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að leggja allt fram sem farið hefur á milli þessara aðila. Það liggur fyrir og er ekkert tortryggilegt við það. Ég tel að við getum alveg rætt málið, menn geta tekið efnislega afstöðu til efnisatriða frumvarpsins hvort sem þessi gögn liggja fyrir eða ekki. Ég held að menn ættu að róa sig niður (Forseti hringir.) og sjá hvort þessi gögn muni ekki liggja fyrir áður en frumvarp hæstv. menntamálaráðherra verður rætt vegna þess að svo getur vel farið.