132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Eldsneytisflutningar til Keflavíkurflugvallar.

261. mál
[12:34]
Hlusta

Böðvar Jónsson (S):

Frú forseti. Sveitarstjórnir á Suðurnesjum hafa lengi lagt áherslu á það mál sem nú er rætt sem snýr að því að draga úr flutningi eldsneytis um Reykjanesbraut með því að nýta þau mannvirki sem til staðar eru í Helguvík. Í Helguvík er ein besta aðstaða á landinu til uppskipunar og geymslu á eldsneyti en þau mannvirki eru í eigu Mannvirkjasjóðs NATO og Bandaríkjamanna. Í dag er staðan sú að þessi aðstaða er vannýtt, aðeins um fjórðungur hennar er nýttur á hverju ári. Leiðslur liggja frá þessum tönkum og upp á Keflavíkurflugvöll þannig að ef aðeins verður byrjað á því að skipa upp flugvélaeldsneyti í Helguvík þá má draga úr eldsneytisflutningum um Reykjanesbraut sennilega um 70–80%. Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum samþykkti á dögunum áskorun um nýtingu tankanna í Helguvík og það er því frekar ástæða til að skora á utanríkisráðherra að beita sér fyrir því að viðeigandi aðilar heimili nýtingu á þeim mannvirkjum sem þarna eru frekar en að samgönguráðherra fari að setja einhver boð og bönn við þessum flutningum.