132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Viðhald vegarins á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur.

275. mál
[12:45]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr, með leyfi forseta:

„1. Hver hefur verið árlegur kostnaður við viðhald vegarins á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur sl. fimm ár?“

Svar mitt er svohljóðandi: Aðeins er fjallað um kostnað við hreinsun rása í þessu svari, viðgerðir á mannvirkjum til varnar grjóthruni og viðgerðir vegna sjávarrofs. Til viðbótar er og hefur verið nokkur kostnaður við úrbætur, uppsetningu varnarbúnaðar.

Kostnaði við grjóthrun og hreinsun rása á Óshlíð og Súðavíkurhlíð hefur lengi verið haldið til haga en ekki skipt á hlíðarnar. Sú skipting er því áætluð en annað er sérstaklega merkt Óshlíðinni. Rétt er að taka einnig fram að ekki er fjallað um almennan viðhaldskostnað við yfirlagnir og ekki heldur um almennan rekstur, svo sem eftirlit, snjómokstur, merkingar og lýsingu. Á árunum 2001–2005 hefur sá kostnaður sem spurt er um verið samtals 33,4 millj. kr. hvað varðar Óshlíðina.

Auk þess er spurt hvernig þessi fyrrgreindi kostnaður skiptist. Svar mitt er að ekki eru til gögn um hvernig þessi kostnaður skiptist á einstaka hluta Óshlíðar. Það sem venja er að kalla Óshlíð nú, þ.e. frá Skarfaskeri út á Óshóla, er um 5,5 km. Grjóthrun er mjög mismikið á milli kafla og langmest úti á Skriðunum þar sem nú er til umræðu að leggja jarðgöng ríflega kílómetralöng. Það er mat þeirra manna sem sjá um þessi verkefni að um tveir þriðju hlutar kostnaðarins geti verið á þeim kafla. Fyrir liggja, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, nýlegar skýrslur, mat á hruni á þessum svæðum. Það er mjög góð skýrsla og gagnleg fyrir okkur til þess að hafa til hliðsjónar um þessar mundir.

Það er spurt um aðra hluta, en eins og fyrr greinir hefur þessi kostnaður ekki verið sundurgreindur á einstaka hluta Óshlíðarinnar. Heildarkostnaðurinn er sem sagt 33,4 milljónir á því tímabili sem um er að ræða.

Vegna þess sem kom fram hjá hv. þingmanni er alveg nauðsynlegt að undirstrika það alveg sérstaklega hvað varðar úrbætur á veginum um Óshlíð að engar ákvarðanir hafa verið teknar aðrar en þær að leggja fjármuni í endurbætur, þ.e. í jarðgöng til þess að standa að varanlegum og öruggum úrlausnum á veginum fyrir Óshlíðina. Rannsóknir eru hafnar og það verður fyrst að loknum þeim rannsóknum sem endanleg ákvörðun verður tekin um jarðgöngin. Það er alveg ljóst að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að fara í úrbætur á Óshlíðinni snúast um að gera þennan veg öruggan og það verður engin önnur leið valin en sú sem við getum verið örugg um að tryggi sem allra best þessa leið. Fljótlega á þessu ári fæst vonandi niðurstaða hvað það varðar.