132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Viðhald vegarins á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur.

275. mál
[12:50]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er full ástæða til þess að skýrar yfirlýsingar verði gefnar um það hvernig verði farið með þennan veg. Fyrir 15–20 árum síðan voru mikið í umræðunni svokallaðir ó-vegir, þ.e. Ólafsvíkurenni, Ólafsfjarðarmúli og Óshlíðin. Framkvæmdir við tvo fyrrnefndu vegina tókust prýðilega. Gerð voru göng til Ólafsfjarðar og góður vegur lagður um Ólafsvíkurenni. Óshlíðin mistókst. Menn verða að horfast í augu við það. (Gripið fram í: Þeir eru hógværir Bolvíkingar.) Bolvíkingar hafa kannski verið hógværir en það er, held ég, ekki aðalástæðan fyrir því að menn hafa ekki klárað þennan veg. Þarna þarf að taka á og það þarf að hugsa málið til framtíðar. Menn verða að hugsa það út frá þeirri staðreynd hvaða veg eigi að hafa þarna inni í langri framtíð og að það sem menn geri núna geti verið hluti af þeirri lausn eða niðurstaðan.