132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Viðhald vegarins á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur.

275. mál
[12:53]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það kann vel að vera rétt eins og hér var kallað fram í áðan að Bolvíkingar hefðu verið hógværir. Ég hygg að svo hafi verið því að menn voru náttúrlega strax á áratugnum 1980–1990 að takast á um hvort gera ætti göng til Bolungarvíkur eða fara um Óshlíðina.

Nú er hins vegar staðan sú að menn una þessu óöryggi ekki lengur og ég held að það sé einboðið að gera jarðgöng, og fagna þess vegna yfirlýsingu hæstv. samgönguráðherra, að nota þær lausnir einar sem nægja til fullkomins öryggis, þ.e. þess öryggis að hrun og snjóskriður séu ekki sú hætta sem verið hefur og að þær lausnir sem gerðar verði dugi til þess að losna út úr því óvissuástandi og hættuástandi sem er á þessum vegi. Auðvitað hefði verið betra ef menn hefðu tekið þá ákvörðun á sínum tíma en um það deildu menn nú á Vestfjörðum, ef ég man rétt, í kosningunum 1983.