132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Viðhald vegarins á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur.

275. mál
[12:54]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það var fagnaðarefni þegar gefin var út yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarinnar um að ráðist yrði í gangagerð og lagfæringar og endurbætur á veginum um Óshlíð nú í haust en óneitanlega fylgdi visst óöryggi þeim yfirlýsingum þar sem aðeins voru gefin fyrirheit um að ráðast í það með einhverjum ákveðnum tilteknum hætti og láta síðan málin standa að hluta til óleyst að mati heimamanna.

Heimamenn hafa haft alveg skýra afstöðu í þessu máli. Þeir vilja fá varanlega örugga lausn í þessum samgöngum og hafa bent á heildstæð jarðgöng á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar. Þess vegna er það fagnaðarefni, finnst mér, að hæstv. samgönguráðherra hefur lýst því hér yfir að þar bindi menn sig ekki við eina fyrir fram gefna leið heldur hafi þeir það að meginmarkmiði að rannsakaðir verði til hlítar allir þeir kostir sem til greina koma til þess að halda þarna uppi öruggum samgöngum og sá kostur valinn sem miði að því að treysta sem best samgönguöryggi þarna á milli. Mér finnst, eftir því sem ég skil yfirlýsingu ráðherra, að ekki sé lengur um það að ræða að ríkisstjórnin ætli bara að binda sig við þá einu fyrir fram gefnu leið (Forseti hringir.) sem tilkynnt var í haust, heldur besta úrkostinn. Síðan þarf að taka líka leiðina til Súðavíkur, frú forseti. (KHG: Þá er að fagna.)