132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Viðhald vegarins á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur.

275. mál
[12:56]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvar sá misskilningur hefur fyrst kviknað að það lægi fyrir nákvæmlega hvar menn ætluðu að setja jarðgöngin milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur. Þessi mál eru núna í rannsóknarferli og rannsóknin er til þess að leiða í ljós hvar eigi að koma fyrir þessum jarðgöngum til að þau tryggi það sem hæstv. samgönguráðherra hefur ævinlega sagt og hefur núna áréttað enn og aftur hér í þessum ræðustóli, að við munum ekki ganga frá þessu máli öðruvísi en að við tryggjum fullkomið öryggi með varanlegum aðgerðum á þessari leið. Það er enginn ágreiningur um það, hvorki innan héraðs á Vestfjörðum né hér í þinginu. Ég geri ráð fyrir því að menn vilji að það verði gert þannig.

Það liggur hins vegar fyrir að hættulegasti kaflinn — og það kemur m.a. fram í rannsóknum Hörpu Grímsdóttur og líka Vegagerðarinnar — er ysti hluti vegarins. Þess vegna er ekki óeðlilegt að menn hafi verið sérstaklega að ræða það mál. En kjarni málsins er sá sem hæstv. ráðherra var að segja hérna — það var mjög skýr yfirlýsing — að við ætlum ekki að ganga frá þessu máli nema með varanlegum og öruggum jarðgöngum og það er náttúrlega mjög mikilvægt í þessu sambandi að ákvörðun ríkisstjórnarinnar á liðnu (Forseti hringir.) hausti braut algjörlega ísinn í þessari umræðu og gerði það að verkum að við getum yfir höfuð talað um þetta sem örugga og varanlega leið (Forseti hringir.) alveg eins og allir ætla sér að stefna að.