132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Eldi á villtum þorskseiðum.

185. mál
[13:05]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þingmanni fyrir að bera fram þessar spurningar sem ég tel að snerti mikilvægt mál sem við hljótum að binda miklar vonir við.

Hv. þingmaður spyr í tveimur töluliðum:

„1. Hvernig metur ráðuneytið reynsluna af veiði villtra þorskseiða af núllárgangi í Ísafjarðardjúpi og áframeldi þeirra annars staðar?“

Svarið er: Tilraunir með föngun á fyrsta ári til áframeldis hófust í Ísafjarðardjúpi í desember árið 2001. Þá náðust aðeins 2.600 þorskseiði en reynslan af þeirri tilraun þótti samt lofa góðu. Því var undirbúin frekari tilraun sem fram fór haustið 2002. Frá þeim tíma hefur hraðfrystihúsið Gunnvör hf., sem ásamt Háafelli hf. hefur staðið að verkefninu, árlega fengið tilraunaleyfi frá sjávarútvegsráðuneytinu. Veiðarnar hafa gengið mjög vel. Þær hafa verið stundaðar nálægt landi í innanverðu Ísafjarðardjúpi á 8–20 föðmum á litlum sérútbúnum eikarbáti. Mjög lítil afföll hafa orðið við veiðarnar og meðafli annarra tegunda yfirleitt verið lítill. Þar er þó einkum um að ræða ýsu- og lýsuseiði. Þau eru flokkuð frá eins og unnt er og sleppt aftur.

Veiðarnar hafa farið fram í ágúst og september. Þá eru þorskseiðin aðeins 1–5 grömm á þyngd og 50–90 millimetrar að lengd. Á undanförnum fimm árum hafa alls verið veidd 2,8 millj. þorskseiði á fyrsta aldursári í Ísafjarðardjúpi. Segja má að eldi seiðanna hafi einnig gengið vel þó að þurft hafi að takast á við ýmis vandamál eins og hv. þingmaður nefndi áðan.

Helstu úrlausnarefnin eru að venja seiðin á tilbúið þurrfóður og koma í veg fyrir sjálfrán og sjúkdóma. Afföll í strandeldi hafa frá september til apríl verið 55–60%, sem segja má að sé viðunandi árangur ef tekið er tillit til þess að enn er um þróunarvinnu að ræða. En afföll í náttúrunni fyrir sama aldurshóp og tímabil eru líklega meiri að jafnaði. Við útsetningu sjókvíar að vori hefur meðalþyngd seiðanna verið um 100 grömm.

Önnur spurning hv. þingmanns er svohljóðandi: „Telur ráðherra ekki rétt að heimila enn frekari veiðar slíkra seiða til að ala til manneldis?“

Sú skoðun er ríkjandi á meðal þorskeldismanna að föngun á villtum seiðum og eldi á þeim sé tímabundin ráðstöfun meðan ekki standa til boða kynbætt seiði en í framtíðinni munu þorskeldi að mestu byggjast á kynbættum eldisseiðum sem framleidd verða í eldisstöðvum.

Stofnað hefur verið fyrirtækið Icecod hf. til að sjá um kynbætur á eldisþorski og seiðaframleiðslu. Hluthafar eru Stofnfiskur, Hafrannsóknastofnun, Fiskey, Þorskur á þurru landi og Prokaria. Seiðaframleiðslan hefur farið fram í tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar á Stað á Reykjanesi og hefur numið um 200 þús. seiðum á ári nú hin síðari ár. Fyrsti vísir að kynbættum þorskseiðum hérlendis verður settur á markað nú í haust.

Við þróun seiðaeldisins er mikilvægt að geta borið saman vöxt hjá villtum seiðum og seiðum sem klakið hefur verið út í eldisstöð. Unnið hefur verið að slíku rannsóknarverkefni á vegum hraðfrystihússins Gunnvarar hf., Háafells hf., Stofnfisks hf. og útibús Hafrannsóknastofnunar á Ísafirði. Föngun á villtum þorskseiðum hefur verið mjög gagnleg við að þróa tæknilegar lausnir við áframeldi á þorski sem nýtast munu síðar við eldi á seiðum sem klakið er í eldisstöðum. Seiðin hafa farið í þrjá staði, Álftafjörð við Ísafjarðardjúp hjá hraðfrystihúsinu Gunnvör, til Eyjafjarðar hjá Brimi og Eskifjarðar þar sem Eskja starfar. Þannig hefur fengist reynsla af þorskeldi við mismunandi umhverfisaðstæður. Hafrannsóknastofnun telur ekki að svo stöddu ástæðu til að ýta undir aukna föngun villtra seiða, einkum ef veiðitíminn yrði lengdur fram á haustið. Ekki er talið að takmarkaðar veiðar hafi áhrif á viðgang villta þorskstofnsins svo lengi sem þær eru stundaðar síðsumars áður en sá tími er liðin er mest náttúruleg afföll eiga sér stað.