132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Eldi á villtum þorskseiðum.

185. mál
[13:09]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er allt gott um þessa tilraun að segja. Hún er mjög merkileg og færir okkur fram á við. Ég hef hins vegar nokkrar áhyggjur af einu varðandi þróunina í Ísafjarðardjúpi. Það tengist vegagerð. Ég vona að hæstv. samgönguráðherra hlýði á mál mitt. Það stendur til að þvera Mjóafjörðinn. Í þessum firði, Mjóafirði, voru eitt árið nánast öll þau seiði sem fóru í eldi á Nauteyri. Þar voru reyndar hvalir, bæði hnúfubakur og hrefna, einnig við ætisöflun. Við þverun fjarðarins er hætt við að straumakerfi hans breytist. Ég vildi beina því til hæstv. samgönguráðherra að það verði vandlega skoðað hvort ekki þurfi að setja rásir undir þar sem gert er ráð fyrir að þverunin verði þannig að sjávarstraumar og straumakerfið í þessum firði, sem ég tel mjög mikilvægt varðandi þorskeldið, verði ekki sett úr jafnvægi með þeirri framkvæmd sem fyrirhuguð er.