132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Eldi á villtum þorskseiðum.

185. mál
[13:10]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Við vitum öll að veiðar á villtum stofnum dragast saman alls staðar í heiminum. Öll aukning á fiski til manneldis kemur í gegnum eldi. Við erum í vandræðum með þorskstofninn hjá okkur, að byggja hann upp, og höfum verið talsvert lengi í þeim vandræðum. Við hljótum að þurfa að velta fyrir okkur öllum leiðum til þess að auka þekkingu okkar á fiskeldi og magn á eldisþorski. Auðvitað er mikilvægt að við fylgjumst með og reynum að vera þar í fararbroddi sem fiskveiðiþjóð en látum ekki aðra, t.d. frændur okkar Norðmenn taka þar frumkvæði.

Tilraunaeldisstöð Hafró á Stað í Grindavík hefur ræktað þorsk eða klakið út þorskseiðum. Hæstv. ráðherra upplýsti að það væru 200 þús. seiði á ári, sem eru afskaplega fá seiði til að byggja á áframeldið. Við hljótum því að reyna, hvað sem Hafró segir, að skoða möguleikana á að ná í meira af villtum seiðum á meðan framleiðslan er ekki meiri í eldisstöðvum en raun ber vitni til að viðhalda og þróa þekkingu á áframeldi.