132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Eldi á villtum þorskseiðum.

185. mál
[13:11]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Tilraunir í þorskeldi eru góðra gjalda verðar þótt ég telji reyndar að íslensku fiskimiðin geti verið svo gjöful, ef rétt er á málum haldið, að best sé að láta náttúruna sjálfa sjá um að framleiða þorskinn. Við vitum að á fyrri hluta 20. aldar skipti afrakstur fiskimiðanna við Ísland fleiri hundruðum þúsunda tonna af þorski árlega.

Þessar tilraunir gefa hins vegar oft ákveðnar vísbendingar um margt varðandi líffræði þorsksins sem er íhugunar virði, t.d. varðandi kynþroskann. Hér er ég með skýrslu um þorskeldi á Íslandi sem sýnir að við kynþroska léttist þorskur um 40%. Hrygnur léttast meira en hængar og stærri hrygnur léttast meira en minni hrygnur. Svo kemur annað í ljós, þ.e. að afföll aukast verulega við hrygningu hjá þorskinum. Í eldi á þorski í kerjum á landi hafa afföll verið allt að 30% yfir hrygningartímann. Hvað skyldi það segja okkur um ástandið hjá villta fiskinum, ástandið sem nú er hjá þorskstofninum? Þar er eitt stærsta vandamálið einmitt ótímabær kynþroski.