132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Jafnstöðuafli.

316. mál
[13:21]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (F):

Virðulegi forseti. Þegar verið var að koma kvótakerfinu á fyrir rúmum 20 árum var þó nokkuð rætt um það hvort menn ættu ekki að ákveða veiðiheimildir til lengri tíma, t.d. þriggja eða fimm ára í senn, í stað þess að gera það sem varð ofan á að ákveða aflamark árlega á hverja tegund sem sett var í kvóta. Þannig gætu útvegsmenn vitað hvað þeir mættu veiða næstu árin að magni til og heimildir þær sem þeir hefðu undir höndum væru ekki að breytast árlega eins og óhjákvæmilegt varð með því fyrirkomulagi sem tekið var upp.

Menn settu líka fram efasemdir um að þessar árlegu breytingar yrðu nokkuð frekar til þess að byggja upp fiskstofnana en tillaga var borin fram, reyndar af Vestfirðingum mörgum hverjum, um að taka ákvörðun til lengri tíma í senn og halda sig við hana og breyta ekki nema ákveðnar kennitölur vikju það langt frá viðmiðunum að ástæða væri til að gera breytingar.

Ég vil nefna sem dæmi, virðulegi forseti, miklar sveiflur sem orðið hafa í tveimur fiskstofnum á undanförnum árum. Fyrst í þorskinum — fiskveiðiárið 1995–1996 var t.d. ákveðið að veiða mætti 155 þús. tonn af þorski. Á aðeins þremur fiskveiðiárum var þetta magn aukið um 95 þús. tonn og síðan minnkað aftur á næstu þremur árum um 71 þús. tonn úr 250 þús. niður 179 þús. Þarna verður á sex fiskveiðiárum gríðarleg sveifla bæði upp og síðan niður í því magni sem veiða má í þessum stofni. Samt verður ekki séð að þorskstofninn hafi neitt byggst upp við það að taka þessar árlegu hreyfingar á því sem veiða mátti úr stofninum á þessum árum. Varðandi ýsuna eru sveiflurnar jafnvel enn meiri. Þar var á fiskveiðiárinu 1994–1995 leyft að veiða 65 þús. tonn. Það var síðan lækkað niður í 30 þús. tonn á sex fiskveiðiárum en síðan var magnið þrefaldað á fjórum fiskveiðiárum upp í 90 þús. tonn.

Ég vil í ljósi þessa, virðulegi forseti, og stöðu þorskstofnsins sérstaklega, bera fram þá fyrirspurn til sjávarútvegsráðherra sem er að finna á þskj. 343 um afstöðu ráðherrans til jafnstöðuafla.