132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Jafnstöðuafli.

316. mál
[13:34]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Eitt af vandamálum sem fylgir kvótakerfinu er að það tryggir hámarkssókn þegar veiðistofninn er í mestu lægðinni, því þá geta menn framselt veiðiréttindi milli svæða og ef þeir ná ekki fiskinum á sínu svæði þá næst hann á öðru svæði. Þannig er gengið hart að fiskstofnum í kvótakerfi, sérstaklega þegar þeir eru í lægð.

Ég tel líka að það sé fyllilega ástæða til að velta fyrir sér upplýsingunum sem við höfum um stærð fiskstofnanna og þar er loðnan alveg sérstaklega til athugunar, af því að hæstv. ráðherra nefndi hana. Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar þar sem fjallað er um fiskstofnana í 21 ár og fram koma tillögur stofnunarinnar um nýtingu á þeim, kemur í ljós að loðnustofninn er stabílasti veiðistofninn. Það komast engir aðrir stofnar nærri honum hvað varðar tillögur fiskifræðinga til veiða, nema karfastofnarnir samanlagðir. Aðrir stofnar koma þar langt á eftir og þegar menn halda ræðurnar um að þetta sé skammlífur stofn o.s.frv. þá hljóta þeir að staðnæmast við þessar staðreyndir úr skýrslu Hafrannsóknastofnunar.