132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Rækjustofninn í Arnarfirði.

354. mál
[13:50]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Lögð hefur verið fram fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsráðherra um rækjustofninn í Arnarfirði. Það er annar rækjustofn, úthafsrækjan, sem við erum í vandræðum með. Fyrir áramót átti ég ágæta utandagskrárumræðu við hæstv. ráðherra um ástandið á úthafsrækjunni. Þar kom m.a. fram hjá hæstv. ráðherra að hann hefði skipað þriggja manna nefnd til að fara í gegnum hvað gera skyldi og hvernig staðan væri hvað úthafsrækjuna varðar. Því vil ég nota þann stutta tíma sem ég hef til að spyrja hæstv. ráðherra og vona að hann geti svarað því hvort þessi nefnd hafi skilað áliti og hvort niðurstaða sé komin frá henni og í framhaldi af því, hvað eigi að gera. Hverjar verða tillögur ráðuneytisins og hæstv. sjávarútvegsráðherra gagnvart úthafsrækjuútgerðunum, vinnslunum, bæjarfélögunum og starfsfólkinu? Ástandið er auðvitað mjög alvarlegt hvað þetta varðar. Ég hef ekki tíma til að fara yfir það núna en allir eru klárir á því hve vandamálið er mikið. Þess vegna vil ég, virðulegi forseti, spyrja hæstv. ráðherra: Hefur nefndin skilað áliti og hvað skal gera gagnvart úthafsrækjunni?