132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Rækjustofninn í Arnarfirði.

354. mál
[13:52]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þessi tilraun vestur í Arnarfirði er náttúrlega grátbrosleg en hún ætti kannski fyrst og fremst að vera grátleg því að þetta er allt saman ein sorgarsaga og mikill harmleikur.

Hvernig er staðan? Rækjustofnarnir eru hrundir, hörpudisksstofninn er hruninn, flatfiskstofnarnir eru í sögulegu lágmarki, úthafskarfinn og þorskstofninn eru sömuleiðis í sögulegu lágmarki. Það virðist vera þó nokkuð af ýsu en hún er hætt að vaxa, sennilega út af ætisskorti, og það virðist vera þó nokkuð af ufsa. Loðnustofninn er sennilega hruninn. Er þetta ekki svolítið svart? Mér finnst það. Þetta er staðan í dag. Rækjan lifir á lífrænum efnum í hafinu, hún er m.a. hrææta. Gæti ekki verið að rækjan sé einmitt hrunin vegna þess að við erum búin að ganga allt of nærri loðnustofninum? Gæti það ekki verið skýringin? Hvernig væri nú að menn færu að hugsa? Lesið Bjarna Sæmundsson. Þið getið fundið nokkur skrif hans á heimasíðu minni. Hvað sagði hann fyrir 100 árum? Menn ættu aðeins að fara að hugsa sinn gang og athuga hvort þessi nýtingarstefna hafi ekki verið kolröng.