132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Rækjustofninn í Arnarfirði.

354. mál
[13:55]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins varðandi þá tilraun sem menn hafa verið að gera vestur í Arnarfirði og hér hefur verið gerð að umræðuefni, þá er ég ósammála hv. þingmönnum Magnúsi Þór Hafsteinssyni og Sigurjóni Þórðarsyni um að hún sé ekki áhugaverð. Ég er hins vegar alveg sammála hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni um að þetta er áhugaverð tilraun. Þetta er tilraun sem ég tel sjálfsagt að við höldum áfram.

Menn hafa verið að velta því fyrir sér hvort þetta sé ekki þannig að við séum, eins og hér var sagt, að fóðra afræningjana, fóðra þorskinn og gera það að verkum að hann komi frekar inn í fjörðinn og liggi síðan í rækjunni. Nú liggur það alveg fyrir að ein vitneskjan sem menn hafa fengið af þessari tilraun er einfaldlega sú að þessi tilraun dregur að sér þorsk af tiltölulega afmörkuðu svæði. Reyndar af afmarkaðra svæði en menn trúðu í upphafi. Eitt af því sem gefur okkur upplýsingar er auðvitað að fara í tilraunir af þessu tagi. Það er því ekkert sem bendir til þess að það sé þannig eins og hv. þingmenn veltu fyrir sér að þessi tilraun verði þess valdandi að granda rækjunni í Arnarfirðinum. Það eru allt aðrar aðstæður sem valda því.

Hér var líka spurt um það sem ég nefndi í umræðu um rækju síðastliðið haust um að ég hefði skipað nefnd til að koma með hugmyndir varðandi stöðu rækjuiðnaðarins og rækjuveiðanna. Það er rétt og þessi nefnd hóf störf 26. október sl. og hún er einmitt að skila af sér núna þessa dagana. Vonandi get ég kynnt þessi mál jafnvel í dag eða á morgun þar sem ég kynni niðurstöður skýrslunnar og þá verður strax séð til þess að þær hugmyndir líti í meginatriðum dagsins ljós í þingmáli. Ég er með þessum hætti að reyna að bregðast við þessum bráða vanda. Hins vegar vil ég undirstrika að vandi rækjuiðnaðarins er ákaflega margslunginn eins og kom fram í umræðunni á sínum tíma og auðvitað er það ekki svo að það sé algerlega á valdi stjórnvalda að bregðast við að öllu leyti. Við munum hins vegar bregðast við eins og hægt er til að létta stöðu rækjuvinnslunnar og rækjuveiðanna og sýna þannig hug okkar í verki og undirstrika að við teljum mikilvægt að bregðast við í þessum efnum.