132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Staða íslensks skipaiðnaðar.

323. mál
[14:00]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Á undanförnum árum hafa stjórnvöld lagt ríka áherslu á að bæta starfsskilyrði atvinnulífs og stuðla þannig að aukinni samkeppnishæfni atvinnulífsins hér á landi. Þetta hefur skilað verulegum árangri sem m.a. kemur fram í auknum hagvexti, nýsköpun, útrás fyrirtækja og auknum kaupmætti. Frá 1995 til ársins 2005, eða sl. tíu ár, hefur t.d. samkeppnisstaða Íslands í fjölþjóðlegum samanburði farið úr 25. sæti í það fjórða samkvæmt mati virtrar stofnunar í Sviss og í það sjöunda samkvæmt World Economic Forum. (GAK: Er engin stofnun …?) Þetta er hækkun um tvö sæti að meðaltali á ári sl. tíu ár sem verður að teljast góður árangur ekki síst með hliðsjón af því að það er langtímaþróun sem skiptir máli í þessu sambandi en ekki sveiflur á milli einstakra ára.

Einnig hefur verið unnið að margvíslegum aðgerðum til stuðnings atvinnurekstri almennt sem m.a. varðar skipasmíðaiðnað. Almennt starf er innt af hendi er varðar atvinnuþróun og þjónustu við fyrirtæki innan stofnana svo sem Impru nýsköpunarmiðstöðvar, Iðntæknistofnunar, rannsóknastofnana, atvinnuþróunarfélaga og annarra sem að þessum málum koma. Einnig hafa samkeppnissjóðir svo sem Tækniþróunarsjóður verið efldir verulega.

Gripið hefur verið til sérstakra ráðstafana í skipaiðnaði til að treysta starfsskilyrði greinarinnar þannig að hún keppi á jafnréttisgrundvelli við erlenda samkeppnisaðila. Í þessu sambandi má m.a. nefna viðamikla úttekt á samkeppnisstöðu greinarinnar sem gerð var árið 2002. Á vegum iðnaðarins var gerð úttekt á stöðu og framtíð skipaiðnaðarins við Faxaflóa í apríl 2005 og jafnframt var gerð skýrsla á vegum ráðuneytisins um samkeppnisstöðu skipasmíðaiðnaðarins á febrúar 2005.

Í þessum skýrslum kemur skýrt fram að á umliðnum árum hafa orðið miklar breytingar á ytra umhverfi í skipasmíðaiðnaði vegna margvíslegra þátta sem ekki er á valdi stjórnvalda að hafa áhrif á. Í því sambandi má nefna eftirfarandi atriði: Alþjóðleg samkeppni er afar mikil og skipasmíðar hafa verið að færast til láglaunalanda. Hreyfanleiki verkefna er mjög mikill á milli landa. Miklar breytingar hafa orðið á skipaflotanum sem hafa haft áhrif á skipaiðnaðinn. Afkastageta er of mikil í skipaiðnaði og verðsamkeppni mikil. Auknar alþjóðlegar kröfur eru í verkefnum í skipaiðnaðinum.

Svo virðist sem rekja megi helstu erfiðleika í skipaiðnaði til breytinga á mörkuðum í iðnaðinum vegna alþjóðlegra og innlendra áhrifaþátta sem ekki er á færi stjórnvalda að fást við heldur er það atvinnugreinarinnar að glíma við slík atriði á sama hátt og aðrar greinar gera. Í þessu sambandi má þó geta þess að veitt er endurgreiðsla vegna aðflutningsgjalda að upphæð 4,5% vegna nýsmíði og meiri háttar endurbóta til samræmis við það sem erlendis er gert til að greinin geti keppt á grunni jafnræðis við erlenda keppinauta. Nýsmíði smárra fiskibáta úr plasti hefur farið vaxandi vegna aukinnar eftirspurnar á innlendum sem erlendum mörkuðum sem er enn eitt dæmi um breytingar sem eru að gerast í greininni. Þess er einnig að geta að miklar stóriðjuframkvæmdir hafa skapað fjölda verkefna í skipaiðnaði sem nýst hafa greininni afarvel ekki síst vegna samdráttar í skipaverkefnum.

Að síðustu vil ég nefna að starfshópur á vegum fjármálaráðuneytisins er að störfum til að yfirfara atriði er varða tolla og breytingar sem orðið hafa og varða endurgreiðslur á aðflutningsgjöldum í skipasmíðaiðnaðinum. Þetta starf mun taka nokkurn tíma eða nokkrar vikur til viðbótar vegna flókinna atriða sem þar eru til umfjöllunar.