132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Atvinnumál á Ísafirði.

339. mál
[14:16]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (F):

Virðulegi forseti. Á síðustu árum hefur verið að festast í sessi sú stefna að einbeita afli hins opinbera til að byggja upp þrjá byggðarkjarna á landinu utan áhrifasvæðis höfuðborgarsvæðisins. En það hefur stækkað og nær nú allt frá Reykjavík og vestur á Snæfellsnes og austur fyrir fjall, austur í Rangárvallasýslu og til Suðurnesja. Svæðin sem menn hafa komist að niðurstöðu um að reyna að styrkja byggð sérstaklega á eru á miðju Austurlandi, í Eyjafirðinum, einkum á Akureyri, og síðan á Vestfjörðum og þá einkum á Ísafirði.

Við höfum séð að hið opinbera hefur varið miklum tíma og kröftum til að ná árangri á þessu sviði og vissulega hefur margt gerst. Mikil uppbygging menntastofnana í Eyjafirði hefur styrkt Akureyri mjög mikið sem stærsta byggðarkjarna utan höfuðborgarsvæðisins og hinar miklu og að sumu leyti umdeildu framkvæmdir á Austurlandi, virkjunarframkvæmdir og álversframkvæmdir, hafa snúið við langvarandi byggðaþróun þannig að nú er fólki að fjölga þar og atvinnulíf að styrkjast.

Nýlega kom út skýrsla á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins sem heitir Landfræðilegt litróf íslenska fasteignamarkaðarins. Hún dregur þetta fram en hún dregur það líka fram að um þriðja svæðið, Ísafjörð, gegnir öðru máli en um hin tvö. Á því svæði hefur fólki fækkað um 2.100 frá árinu 1990 til 2004. Raunhækkun launa á þessu svæði hefur verið helmingur þess sem annars staðar hefur verið á landinu þannig að laun hafa lækkað í hlutfalli við það sem orðið hefur hjá öðrum landsmönnum. Og í þriðja lagi hefur fasteignaverð þar lækkað um 28% en það hefur hækkað alls staðar annars staðar á landinu, 24% á Austurlandi og 30% á Norðurlandi eystra.

Þegar ríkið ákvað að selja Símann gerðist það að nýir eigendur ákváðu að draga úr atvinnustarfsemi sinni á Ísafirði með því að loka starfsstöð dótturfyrirtækis síns sem heitir Já á Ísafirði og færa störfin sem þar eru eða voru til Akureyrar og Egilsstaða. Meiningin hjá hinum nýju eigendum var að styrkja starfsstöður sína á þessum tveimur stöðum en loka á Ísafirði.

Í ljósi þeirrar þróunar sem hefur verið á atvinnumálum á Ísafjarðarsvæðinu spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Hyggst ráðherra bregðast við ákvörðun Símans um að loka starfsstöð fyrirtækisins Já á Ísafirði í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur þá stefnu að efla Ísafjörð sem byggðarkjarna?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir fjárveitingu til atvinnuuppbyggingar á Ísafirði til mótvægis við samdrátt sem leitt hefur af sölu Símans?