132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Atvinnumál á Ísafirði.

339. mál
[14:28]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Fáir landshlutar hafa orðið verr úti í ruðningsáhrifum stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar en einmitt Vestfirðir. Hæstv. ráðherra sendi þeim þá kveðju á sl. sumri þegar var verið segja þar upp fjölda fólks í fiskvinnslu vegna ruðningsáhrifanna, að ruðningsáhrifin vegna stóriðjuframkvæmda væru af því góða því þá leitaði fólk væntanlega í önnur störf. Þetta voru kaldar kveðjur til Vestfirðinga.

Sala Símans. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs gagnrýndum hana. Við vorum á móti sölu Símans og töldum að það ætti að beita styrk hans til að efla þjónustu í samfélaginu út um land. Framsóknarflokkurinn valdi að ganga fram fyrir skjöldu og selja Símann og þar með þjónustuna og setja hana í uppnám. Þannig að uppsagnirnar á Ísafirði, Blönduósi og Siglufirði daginn eftir að skrifað var undir samninginn komu okkur ekkert á óvart. Þetta er þessi einkavæðingarstefna sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og byggðamálaráðherra hefur gengist fyrir. Og hvað með Orkubú Vestfjarða nú? (Forseti hringir.) Frú forseti. Ég hef áhyggjur af þessari stefnu.