132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Atvinnumál á Ísafirði.

339. mál
[14:29]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er fyllsta ástæða til að kalla eftir viðbrögðum stjórnvalda við afleitri byggðaþróun á Vestfjörðum. Það er líka fyllsta ástæða til að kalla eftir viðbrögðum hæstv. ráðherra við áframhaldi á þeirri þróun í framhaldi af einkavæðingu Símans. Ég get alveg tekið undir að menn eru að gera ýmislegt sem væntanlega mun verða til að styrkja atvinnulífið, eins og vaxtarsamninginn sem hæstv. ráðherra nefndi eða samkomulag milli einstakra stofnana um að auka rannsóknir á tilteknu sviði.

En atriðin sem hæstv. ráðherra nefndi voru komin til sögunnar áður en sú ákvörðun var tekin sem ég er að spyrja hæstv. ráðherra um viðbrögð við. Ég fæ því ekkert annað út úr svörum ráðherrans en að ráðherrann sér ekki ástæðu til að bregðast við með neinum hætti í tilefni af þessum tíðindum að öðru leyti en að fagna því að opinber aðili, bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, hugsi sér að reyna að gera eitthvað til að bæta úr. Mér finnst það standa reyndar nær hæstv. ráðherra að beita sér í þeim efnum en bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar þótt ég efist ekki um að þeir vilji allt gera sem er á þeirra valdi til að bæta úr þessu. En sveitarfélög hafa ekki mikla peninga til að standa í atvinnuuppbyggingu eða styrkja atvinnulíf á sínu svæði. Ríkið hefur haft það sem sitt verkefni.

Virðulegi forseti. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar óskaði eftir því að fá keypta þessa starfsstöð. Það var ekki í boði. Fyrirtækið Síminn var ekki tilbúið til að leyfa öðrum aðila að reka hana áfram. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að svör hæstv. ráðherra eru mér veruleg vonbrigði. Mér finnst þau sýna töluvert skeytingarleysi í garð íbúa þessa landshluta sem svo mikið hafa mátt þola á undanförnum 15 árum í fækkun íbúa og samdrætti í atvinnulífi.