132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Mál Ölgerðarinnar gegn umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur.

296. mál
[14:38]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. og fyrirspyrjanda, Sigurjóni Þórðarsyni, að hollusta og öryggi matvæla er mjög mikilvægt málefni fyrir okkur öll og þess vegna skiptir miklu máli að þar sé vel að verki staðið. Í úrskurði úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, sem var kveðinn upp þann 21. mars 2005 í máli Ölgerðar Egils Skallagrímssonar gegn umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur, var dreifingarbann sem sett var á vítamínbættan drykk ölgerðarinnar Kristall PLÚS fært úr gildi. Það er óhætt að segja að úrskurður nefndarinnar kom á óvart.

Í reglugerð um aukefni, nr. 285/2002, er bráðabirgðaákvæði þar sem segir að þar til reglugerð um íblöndun bætiefna verði sett geti Umhverfisstofnun veitt leyfi til notkunar bætiefna. Í framangreindum úrskurði segir m.a.:

„Eigi verður séð að refsingar og viðurlög í reglugerð um aukefni í matvælum nr. 285/2000, með stoð í lögum um matvæli í XI. kafla laga nr. 93/1995, eigi við um úrræði stjórnvalda um bætiefni í matvælum.“

Með þessu er gefið til kynna að ekki sé rétt að fjalla um íblöndun bætiefna í reglugerð um aukefni.

Í umhverfisráðuneytinu hefur verið unnið að nýrri reglugerð um íblöndun bætiefna og í drögum að reglugerð sem nú liggja fyrir er gert ráð fyrir að íblöndun bætiefna sé háð leyfi Umhverfisstofnunar og að heimilt sé að setja skilyrði, m.a. um merkingar viðkomandi vöru, í leyfið. Einnig eru í drögunum ákvæði um þvingunarúrræði og viðurlög. Vegna ákvæða samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um frjálst vöruflæði þarf að tilkynna drög að reglugerð um íblöndun bætiefna, samanber lög um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu, nr. 57/2000, þar sem ekki eru í gildi samevrópskar reglur um íblöndun bætiefna. Þetta ferli stendur nú yfir og búast má við að niðurstaðan liggi fyrir á næstu vikum. Þetta tekur sinn tíma.

Ég vil einnig geta þess í þessu sambandi að á öðrum Norðurlöndum eru nú í gildi reglur um að íblöndun bætiefna sé háð leyfum þannig að ég á ekki von á öðru en að þetta gangi fram með þeim hætti.