132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Mál Ölgerðarinnar gegn umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur.

296. mál
[14:42]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin en það væri fróðlegt að fá nánari upplýsingar um það hvenær þess er að vænta að þessar reglur nái fram að ganga og hvort ekki sé eðlilegt fram að því að fella umrædda 19. gr. úr gildi. Það er ljóst, samkvæmt úrskurðarnefndinni, að hún hefur enga stoð í lögum. Það er einfaldlega villandi fyrir framleiðendur að hafa þessa grein, fyrirtæki sækja um á grundvelli hennar og greiða jafnvel gjald og svo kemur í ljós að það er ekki hægt að krefjast þess að menn fari að reglunum.

Ég vil taka það skýrt fram að ég er alls ekki fylgjandi því að allar reglur séu mjög strangar og ekki heldur að þær séu mjög flóknar. Það er mjög mikilvægt hvað varðar matvælaeftirlit að við höfum einfaldar og skýrar leikreglur og menn séu ekki með einhvern texta inni í reglugerðum og öðru sem á ekkert að fara eftir. Það er fjöldinn allur af ákvæðum í reglugerðum sem ekki er farið eftir í þessum geira sem hæstv. ráðherra stjórnar. Ég þekki það úr mínu fyrra starfi. Ég tel því mjög mikilvægt að taka til einmitt í þessum geira, vera ekki með óþörf ákvæði inni og ef setja á reglur verði það gert fljótt og örugglega.

Að öðru leyti þakka ég hæstv. ráðherra fyrir svörin og óska eftir því að hún geri grein fyrir því, ef hún hefur tök á, hvenær þess er að vænta að þessar reglur verði settar.